Það tekur ekki nema rétt rúmlega klukkustund að aka frá Reykjavík til Borgarbyggðar en þegar þangað er komið er auðvelt að verja mörgum dögum í að skoða söfn, kirkjur og undur náttúrunnar, heimsækja heilsulindir og framúrskarandi veitingastaði og verja nóttinni á vistlegu tjaldsvæði, þægilegu hóteli eða gistiheimili þar sem öll umgjörð, þjónusta og gestrisni eru eins og best verður á kosið.
Björk Júlíana Jóelsdóttir, verkefnastjóri markaðsmála hjá Markaðsstofu Vesturlands, segir að mikil sprenging hafi orðið í ferðaþjónustu á svæðinu bara á síðustu fimm eða sex árum og muni þar ekki síst um opnun ísganganna í Langjökli og Hótel Húsafells árið 2015. „Síðan þá hefur hreinlega verið ótrúlega mikið að gera og alls konar þjónusta og afþreying bæst við framboðið. Er ekki nokkur vandi að verja heilli viku á þessu svæði og gera eitthvað nýtt hvern dag.“
Nú er upplagt fyrir landann að endurnýja kynnin af Borgarbyggð, enda má reikna með að á helstu áfangastöðum ferðamanna verði rólegra en venjulega þangað til komur erlendra gesta fara aftur í eðlilegt horf. Eiga örugglega margir t.d. enn eftir að heimsækja ísgöngin í Langjökli og segir Björk að upplifunin sé alveg einstök. „Að ganga inn í jökulinn er hreinlega ótrúlegt og nokkuð sem allir aldurshópar hafa gaman af, og líka tækifæri til að læra þá merkilegu sögu sem jökullinn geymir og birtist t.d. í öskulögunum sem sjást þegar gengið er eftir ísgöngunum. Það sama má segja um Víðgelmi, sem er stærstur allra hraunhella á Íslandi og einstaklega aðgengilegur gestum “
Freistingar af ýmsu tagi
Matgæðingar ættu að gera sér sérstaka ferð til Borgarbyggðar og segir Björk að þó að þjóðvegasjoppan Hyrnan skipi sérstakan sess í hjörtum margra landsmanna geymi Borgarnesbær og nágrenni marga fyrsta flokks veitingastaði í bland við setur og sýningar, garða og göngustíga sem gaman er að rölta um.Af veitingastöðunum á svæðinu má nefna Englendingavík, þar sem njóta má vandaðra rétta og fallegs útsýnis, og Geirabakarí, sem heimamenn eru á einu máli um að sé eitt allrabesta bakarí og kaffihús landsins. „Sundlaugin í bænum laðar marga til sín, með rennibraut, gufuböð og notalega heita potta. Þá er Skallagrímsgarður fallegur sælureitur, og börnin gleyma ekki heimsókn í Bjössaróló, Latabæjarsafnið eða fuglasýninguna í Safnahúsi Borgarfjarðar. Landnámssetrið ættu líka allir að heimsækja enda sýningarnar þar fræðandi og umgjörðin flott, að ógleymdum veitingastaðnum þar sem er í uppáhaldi hjá mörgum. Þeir sem beygja til vinstri við Hyrnuna, á leið sinni norður í land, munu uppgötva að Borgarnes er ótrúlega huggulegur bær sem býður upp á margt að gera og sjá.“
Þegar komið er út fyrir Borgarnesbæ er líka ótalmargt í boði fyrir ferðalanga. Geitfjársetrið Háafell tekur vel á móti gestum og geta áhugasamir meira að segja tekið geit í fóstur og þannig lagt sitt af mörkum við verndun íslenska geitastofnsins. Fjórir golfvellir eru á svæðinu, fimm sundlaugar og sex hestaleigur sem bjóða upp á bæði styttri og lengri ferðir. Af náttúruundrum má nefna Hraunfossa, sem þykja með allra fallegustu fossum á landinu, og Deildartunguhver, sem er vatnsmesti hver Evrópu. ai@mbl.is