Frá vinstri: Nína, Ásdís, Jóhanna, Bjarni, Viktor, Sigurður og Jóhannes.
Frá vinstri: Nína, Ásdís, Jóhanna, Bjarni, Viktor, Sigurður og Jóhannes. — Morgunblaðið/Eggert
Upplagt er fyrir börnin að kynnast golfíþróttinni á námskeiðum í sumar

Golfskóli GR er starfræktur yfir sumartímann og er hugsaður fyrir börn og unglinga á aldrinum 7-15 ára sem eru að stíga sín fyrstu skref í golfíþróttinni. Námskeiðin fara fram á æfingasvæði Bása í Grafarholti. Öllum er heimil þátttaka hvort sem viðkomandi er félagi í golfklúbbi eða ekki.

GR leggur mikla áherslu og metnað í að halda vönduð sumarnámskeið fyrir krakka sem eru að byrja í golfi. Yfirþjálfarar klúbbsins, Snorri Páll Ólafsson, David George Barnwell og Derrick Moore, hafa umsjón með námskeiðunum.

Afrekskylfingar í GR leiðbeina einnig á námskeiðunum. Þau heita Jóhannes Guðmundsson, Viktor Ingi Einarsson, Sigurður Bjarki Blumenstein, Ásdís Valtýsdóttir, Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir, Nína Valtýsdóttir og Bjarni Þór Lúðvíksson. Leiðbeinendurnir eru margfaldir íslandsmeistarar í ýmsum aldursflokkum í golfi, þ.e. í höggleik, holukeppni og sveitakeppnum.

Byrjuðu sjálf á námskeiðum

Leiðbeinendurnir eiga það allir sammerkt að hafa byrjað í golfi á sumarnámskeiðum GR. Þaðan fóru þau svo á sínar fyrstu reglulegu æfingar í barna- og unglingastarfi GR, en það starf er rekið allt árið.

Þeir krakkar sem koma á sumarnámskeiðin þurfa ekki að eiga kylfur eða vandaðan búnað þegar þau koma á fyrsta námskeiðið þar sem þau geta fengið búnað lánaðan hjá klúbbnum, a.m.k. fyrstu skrefin. Við hvetjum því sem flesta foreldra til að gefa börnum sínum tækifæri á því að prófa að æfa golf hjá GR undir leiðsögn góðra kennara.

Námskeiðin hefjast klukkan 9:00 alla morgna og standa til klukkan 13:00. Mæting er í Básum í Grafarholti þar sem leiðbeinendur taka á móti krökkunum. Þátttakendur eru beðnir að koma klæddir eftir veðri og hafa með aukafatnað. Vera viðbúnir öllu hvað veður varðar. Einnig er æskilegt að hafa með sér hollt nesti og drykk.

Eftir að hafa lokið námskeiði stíga krakkarnir mörg hver inn í starfið hjá klúbbnum og stunda reglubundnar æfingar allt árið um kring og eru þau tilbúin í að takast á við flóknari verkefni á skemmtilegum og árangursmiðuðum æfingum eftir veru sína í Golfskólanum.

Skráning

Skráningar í Golfskóla GR fara fram á félagavef klúbbsins:

www.grgolf.felog.is

Gjaldið

Þátttökugjald er 14.100 kr. og innifalið í því er:

* Fjögurra daga kennsla í Golfskóla GR.

* Aðgangur að Grafarkots- og Thorsvelli út sumarið 2020.

* Boltakort í Bása.

* Pítsuveisla á lokadegi.

* Diplóma í lok námskeiðs.

*Tveggja vikna aðgangur að æfingum í barna- og unglingastarfi GR að loknu námskeiði.

* Systkinaafsláttur, 20%, er veittur (20% af gjaldi annars, þriðja og fleiri systkina).

Námskeiðin 2020

Sumarið 2020 verða námskeiðin haldin á eftirfarandi dagsetningum:

* Námskeið 1. 22.-25 júní

* Námskeið 2. 29. júní til 2. júlí

* Námskeið 3. 13.-16. júlí

* Námskeið 4. 27.-30. júlí

* Námskeið 5. 10.-13. ágúst.