Erna Vilbergsdóttir fæddist 17. febrúar 1948. Hún lést 1. maí 2020.

Útför hennar fór fram í Fríkirkjunni í Reykjavík 11. maí 2020.

Það er erfitt að sætta sig við það að mamma sé farin frá okkur. Góðu minningarnar um þessa fallegu konu hrannast upp í huganum. Hún mamma hafði risastórt hjarta og var ávallt tilbúin að gefa af sér til annarra. Það leið öllum vel í kringum hana og betri gestgjafa var ekki hægt að finna.

Hún hafði einstakan hæfileika í eldhúsinu og það skipti ekki máli hvort það var bakstur eða eldamennska, það lék allt í höndunum á henni. Hún eyddi miklum tíma í að skoða uppskriftir og handskrifaði allar sem henni leist vel á inn í uppskriftabókina sína, sem var eins og biblía heimilisins. Enginn sem kom í mat eða kaffi til mömmu fór svangur út. Hún lifði fyrir það að fá börnin sín og barnabörnin í heimsókn og stjana við þau og leggja kræsingar á borð fyrir þá sem komu.

Eldamennska og bakstur var mikið áhugamál og tengjast því margar sögur af henni mömmu, bæði mat og bakstri. Við systkinin rifjum upp útilegur og sumarbústaðaferðir þar sem allt var upp á tíu þegar kom að nesti í þessar ferðir. Hún elskaði að fá fólk í heimsókn og fengu allir matarást á henni mömmu, líka dýrin sem komu inn í hennar líf. Hundarnir og kettirnir í fjölskyldunni elskuðu mömmu líkt og mannfólkið.

Mamma var mikið fyrir útivist og eigum við ótalmargar minningar úr útilegum og veiðitúrum. Við erum margoft búin að keyra hringinn í kringum landið og gista í öllum landshornum í tjaldi. Hún var mikil fjölskyldumanneskja og vissi fátt betra en að hafa alla í kringum sig.

Mamma var mjög lagin með barnabörnin sín og elskaði þau afar heitt og voru þau pabbi gríðarlega mikilvæg okkur öllum þegar nóg var að gera á stórum heimilum. Þegar krakkarnir vissu af því að þau væru á leið í næturgistingu hjá ömmu og afa var alltaf mikil tilhlökkun því þau vissu að það yrði stjanað við þau frá morgni til kvölds. Þau voru líka mjög dugleg að fylgja barnabörnunum eftir í þeirra íþróttastarfi og komu nánast í hvert sinn að styðja við bakið á þeim og taka af þeim myndir í leik og starfi.

Svona minningar um ömmu og afa eru ómetanlegar og erum við öll þakklát fyrir þann tíma sem við fengum með þessari yndislegu konu sem við erum svo heppin að fá að kalla mömmu.

Þótt síðustu mánuðir í lífi mömmu hafi verið erfiðir kvartaði hún aldrei.

Hún tók veikindum sínum með jákvæðni og von í brjósti og var ekki að íþyngja neinum í kringum sig.

Elsku mamma, þú verður alltaf hetja í okkar augum og þótt það sé ofboðslega sárt að þurfa að horfa á eftir þér inn í draumalandið vitum við að þú ert hætt að þjást af erfiðum veikindum og komin á góðan stað þar sem þér líður vel með fólki sem þú hefur ekki fengið að hitta lengi. Við vitum að þú munt passa upp á okkur öll áfram og við látum minninguna um bestu mömmu í heimi lifa að eilífu.

Þórunn, Vilberg (Villi), Benedikt (Benni) og Bjarki.