Bergþór Ólason alþingismaður vakti athygli á því á Alþingi í gær að meirihlutinn í borgarstjórn hygðist, þrátt fyrir sáttmála um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, standa í vegi fyrir því að nokkur ný mislæg gatnamót yrðu gerð í Reykjavík. Þetta hefði komið fram á fundi umhverfis- og samgöngunefndar þingsins, en þar er Bergþór formaður.
Hann tók sérstaklega dæmi af gatnamótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar í þessu sambandi, sem eru hluti af sáttmálanum, og sagði engan hafa haft hugmyndaflug í að ætla að framkvæmdir á þessum gatnamótum ættu ekki að fela í sér mislæg gatnamót. Spurði hann fjármálaráðherra út í hvort það gæti verið að samþykkt hefði verið að leggja 120 milljarða króna í samgöngusáttmálann þó að vilji Vegagerðarinnar yrði að engu hafður.
Athygli vekur að í svari fjármálaráðherra kom annars vegar fram að ríkisvaldið hefði ýmsa sterka fyrirvara hvað sáttmálann snerti og að engu fé yrði úthlutað án vilja þess. Hins vegar sagði ráðherra að það hefði komið fram varðandi umrædd gatnamót í undirbúningsviðræðum vegna samgöngusáttmálans „að það væru til útfærðar hugmyndir að þessum gatnamótum og þar hefði verið um að ræða mislæg gatnamót“.
Bergþór fagnaði þessu svari enda gefur það vonir um að ríkisvaldið muni mögulega standa með almenningi gagnvart aðför borgarinnar að helsta ferðamáta hans, fjölskyldubílnum.