Sjávarútvegur Eignir Brims hf. nema 110,5 milljörðum króna.
Sjávarútvegur Eignir Brims hf. nema 110,5 milljörðum króna. — Morgunblaðið/Hari
Útgerðarfyrirtækið Brim hf. hagnaðist um 429 þúsund evrur, eða 67 milljónir króna, á fyrsta fjórðungi þessa árs, sem er umtalsverð breyting frá sama tíma í fyrra, þegar félagið hagnaðist um 615 milljónir króna, eða rúmlega 3,9 milljónir evra.

Útgerðarfyrirtækið Brim hf. hagnaðist um 429 þúsund evrur, eða 67 milljónir króna, á fyrsta fjórðungi þessa árs, sem er umtalsverð breyting frá sama tíma í fyrra, þegar félagið hagnaðist um 615 milljónir króna, eða rúmlega 3,9 milljónir evra. Nemur minnkunin milli ára 90%.

Eignir Brims námu í lok fjórðungsins 704 milljónum evra, eða 110,5 milljörðum króna, og jukust þær lítillega milli ára, eða um hátt í fjórar milljónir evra.

Eigið fé félagsins nemur núna 306 milljónum evra, eða 48 milljörðum króna. Það dróst saman um 3,5% milli ára, en það var 317 milljónir evra í lok fyrsta ársfjórðungs 2019. Eiginfjárhlutfall félagsins er 44%.

Rekstrartekjur Brims hf. á fyrsta fjórðungi ársins 2020 námu 74,4 milljónum evra, eða 11,7 milljörðum króna, samanborið við 58 milljónir evra árið áður, eða rúmlega níu milljörðum króna.

Kristján Þ. Davíðsson, stjórnarformaður Brims hf., segir í tilkynningu sem félagið sendi til kauphallar að afkoma Brims á fyrsta ársfjórðungi 2020 hafi markast nokkuð af erfiðu tíðarfari og þar með gæftum í upphafi árs með nokkuð lakari afla og þar með afkomu, einkum í veiðum og vinnslu uppsjávarafla. Einnig hafi loðnubrestur annað árið í röð valdið nokkru um afkomu fjórðungsins.

Í tilkynningunni segir Kristján jafnframt að félagið njóti nú góðs af fjárfestingum undanfarinna missera, bæði í Ögurvík og sölufélögum í Asíu. „Þrátt fyrir að verð sjávarafurða hafi almennt verið tiltölulega gott í upphafi árs eru horfur á mörkuðum óvissar vegna áhrifa heimsfaraldursins á neyslumynstur, sölu og flutninga,“ segir Kristján að endingu í tilkynningunni.