Félagarnir í Elítunni tilbúnir í slaginn í fullum herklæðum á 1. teig á Grafarholtsvelli.
Félagarnir í Elítunni tilbúnir í slaginn í fullum herklæðum á 1. teig á Grafarholtsvelli. — Ljósmynd/GR
Félagsstarfið hjá GR tekur á sig margvíslegar myndir

Golfklúbbur Reykjavíkur er fjölmennasti golfklúbbur landsins. Félagsstarfið er með fjölbreyttum hætti. Hvað keppni varðar innan klúbbsins má nefna að árlega er haldin holukeppni fyrir kylfinga þar sem hámarksfjöldi keppenda er 128 manns. Í þessari keppni er keppt með forgjöf og er mótið bæði fyrir karla og konur. Ný umferð byrjar á tveggja vikna fresti og stendur keppnin því yfir allt sumarið.

Önnur keppni sem stendur allt sumarið er liðakeppni GR. Þar er um að ræða eins konar sveitakeppni innan klúbbsins. Á síðasta ári voru 20 lið sem léku í fjórum riðlum þar sem öll liðin mættust innbyrðis og tvö liðanna komust áfram í 8 liða úrslit. Síðan er leikið með útsláttarfyrirkomulagi þar til keppni lýkur með úrslitaleik.

Eitt sem er einkennandi í GR eru hinir fjölmörgu hópar sem leika saman í hverri viku. Þetta eru gjarnan 8-20 manna hópar sem eiga sína föstu golfdaga og keppa sín á milli í holukeppni, höggleik, punktakeppni eða hverju sem fólki dettur í hug. Margir þessara hópa fara saman í golfferðir erlendis. Þá eru margir þessara hópa sem setja upp eins konar Ryder-keppni sín á milli.

Elítan

Einn þessara hópa kallar sig Elítuna og blaðið tók Brynjar Jóhannesson stuttlega tali en hann mun vera í forsvari fyrir hópinn. Hve lengi hefur hópurinn verið starfandi?

„Elítan er stofnuð 2011 með það að markmiði að hittast vikulega og bæta sig í golfi. Við erum tuttugu félagar í Elítunni og er það virkilega samheldinn hópur sem spilar alloft fyrir utan venjulega leikdaga. Við leggjum mikið upp úr því að vera vel til fara og kaupir Elítan fatnað frá Footjoy á hverju ári sem er ávallt merktur Elítunni.“

Brynjar segir þá félaga keppa átján sinnum yfir sumarið og geta menn notað þau ellefu skipti þar sem þeim tókst best upp. „Vikulega keppum við í punktakeppni en þess utan er keppt í holukeppni en sú keppni verður að fara fram utan venjulegra leikdaga. Mótin eru átján talsins yfir sumarið og ellefu bestu gilda. Við erum líka með keppni án forgjafar til að verðlauna snjallasta kylfinginn. Einnig er keppni um hver fær flesta fugla á mótaröðinni en í fyrra vannst sú keppni með 47 fuglum.“

Félagarnir hafa ýmislegt fleira fyrir stafni og fara til að mynda saman til útlanda til að sinna áhugamálinu.

„Elítan hefur keppt við keppnishóp sem kallar sig FH. Síðan höfum við verið með í hópakeppni GR síðustu ár. Við förum til útlanda á tveggja ára fresti og síðast var farið til Bretlands. Þetta hafa verið cirka fimm daga ferðir og mikið golf og mikil gleði í þessum ferðum. Fámennastir í ferð höfum við verið sextán en við höfum náð því að ferðast allir tuttugu saman erlendis sem er alveg frábært,“ segir Brynjar.