Serge Aurier, bakvörður enska knattspyrnuliðsins Tottenham Hotspur, sætir nú rannsókn hjá félaginu, en hann virðist hafa brotið reglur um fjarlægðartakmarkanir í þriðja skipti. Aurier hefur í tvígang neyðst til að biðjast afsökunar á því að brjóta reglur um útgöngubann á Bretlandseyjum sem var í gildi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.
Í fyrrakvöld birti hann mynd af sér á Instagram þar sem hann skartaði nýrri klippingu og merkti færsluna jafnframt hárskeranum Justin Carr. Sky Sports segir að Tottenham hafi tekið málið til rannsóknar, en svo virðist sem um einbeittan brotavilja sé að ræða og hann má því búast við því að eiga yfir höfði sér refsingu frá félaginu.
Aurier er 27 ára gamall Fílabeinsstrendingur sem hefur leikið með Tottenham frá 2017, en þá kom hann til félagsins frá París SG. Hann á að baki 62 landsleiki fyrir Fílabeinsströndina. vs@mbl.is