Leifsstöð Stefnt er á að skima á ytri landamærum frá 1. júlí.
Leifsstöð Stefnt er á að skima á ytri landamærum frá 1. júlí. — Morgunblaðið/Ómar
Schengen ætlar að framlengja ferðatakmarkanir yfir ytri landamæri sín til 1.

Schengen ætlar að framlengja ferðatakmarkanir yfir ytri landamæri sín til 1. júlí og Íslandi er ekki stætt á því að opna ytri landamæri sín fyrir ónauðsynlegum ferðum fyrr en fyrir liggur hvernig best verður staðið að brottfaraeftirliti hér gagnvart öðrum Schengen-ríkjum. Þetta sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is. í gær. Stjórnvöld sendu frá sér tilkynningu á mánudag þar sem greint var frá þeim breytingum sem verða á komum ferðamanna hingað til lands frá og með 15. júní nk. Þar kom fram að ekki lægi fyrir hvort takmarkanir á ytri landamærum Schengen, sem hafa verið í gildi frá 17. mars, yrðu framlengdar til 1. júlí. Dómsmálaráðherra staðfesti svo í gær að það stæði til.

„Nú liggur fyrir að Schengen ætlar að framlengja ferðatakmarkanir yfir ytri landamæri til 1. júlí. Við munum því ekki opna ytri landamærin fyrir ónauðsynlegum ferðum fyrr en fyrir liggja ákveðnar upplýsingar bæði hvað varðar áform ríkja utan Schengen, t.d. Bandaríkjanna, svo og hvernig best verði staðið að brottfaraeftirliti hér gagnvart öðrum Schengen-ríkjum. Afkastageta okkar við skimun takmarkar okkur einnig við 2.000 sýni á dag í júní,“ sagði Áslaug.

Bætti hún við að brottfaraeftirlit gagnvart öðrum Schengen-ríkjum, þ.e. eftirlit með farþegum sem koma hingað til lands frá ríkjum utan Schengen og ætla sér að ferðast áfram til ríkja innan Schengen, sé framkvæmd sem krefjist nýrra lausna.

Hún hefur sent bréf til framkvæmdastjórnar ESB þar sem gerð er grein fyrir sérstöðu Íslands varðandi þau áform sem hafa verið hér uppi um opnun ytri landamæra. Stefnt er að því að hefja skimun á ytri landamærum frá og með 1. júlí.