„Þegar við lögðum af stað í þessa vegferð var það alls óvíst hvort þetta myndi hafast, enda er þetta þriðja frumvarpið sem hefur verið lagt fram,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Frumvarp Lilju um Menntasjóð námsmanna var samþykkt af meirihluta Alþingis í gær. Sjóðurinn tekur við af LÍN 1. júlí, þegar lögin taka gildi.
Ábyrgðarmannafyrirkomulag LÍN verður afnumið og ábyrgðir á námslánum falla niður að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þá er veitt heimild til afsláttar til lánþega við uppgreiðslu eða innborgun námslána. Námsstyrkir og fleiri réttindi verða að veruleika.
„Það góða við þetta frumvarp er að það var gert í miklu samráði við hagaðila, sér í lagi Landssamtök stúdenta. Stúdentar hafa lengi kallað eftir breytingum og bættum kjörum. Það er því afrek að hafa náð frumvarpinu í gegnum þingið. Það hefði þó aldrei tekist án mikils stuðnings frá formanni allsherjar- og menntamálanefndar, en ekki síður nefndinni sjálfri,“ segir Lilja.