Gullfoss er einn vinsælasti ferðamannastaður á Íslandi.
Gullfoss er einn vinsælasti ferðamannastaður á Íslandi. — Morgunblaðið/Ómar
Ferðaþjónusta Gullfosskaffi, þjónustumiðstöðin við Gullfoss, sem er í eigu hjónanna Svavars Njarðarsonar og Elfu Bjarkar Magnúsdóttur, hefur sagt upp öllu starfsfólki sínu, 15-20 að tölu.

Ferðaþjónusta Gullfosskaffi, þjónustumiðstöðin við Gullfoss, sem er í eigu hjónanna Svavars Njarðarsonar og Elfu Bjarkar Magnúsdóttur, hefur sagt upp öllu starfsfólki sínu, 15-20 að tölu. Opið verður í Gullfosskaffi í sumar en starfsemin verður í skötulíki næsta vetur.

Svavar segir í samtali við ViðskiptaMoggann að um varúðarráðstöfun sé að ræða. Starfsemin verði endurskipulögð.

„Það er ekki útilokað að það verði eitthvað opið hjá okkur næsta vetur. Við fylgjumst grannt með þróun mála,“ segir Svavar, en fyrirtækið varð fyrir algjöru tekjufalli vegna kórónuveirufaraldursins. „Við höfum nýtt okkur úrræði stjórnvalda en það er of dýrt að hafa þetta margt starfsfólk í vinnu áfram næsta vetur. Íslenskir ferðamenn vega ekki upp á móti straumi erlendra ferðamanna. Þetta eru sársaukafullar og erfiðar aðgerðir.“

Samkvæmt upplýsingum úr ársreikningaskrá var Gullfosskaffi rekið með 140 m.kr. hagnaði árið 2018. Árstekjur félagsins hafa verið rúmur einn milljarður króna síðustu ár.

Svavar segir að næsta vetur verði horfið 10-15 ár aftur í tímann, eða til þess tíma þegar hann og fjölskylda hans þjónustuðu ferðamenn á staðnum.

Hann segir að félagið hafi fjárfest fyrir um einn milljarð króna í innviðum á svæðinu á síðustu fimm árum, byggt upp bílastæði og öfluga frárennslisstöð sem annað geti þúsundum ferðamanna daglega.

Aðspurður segir Svavar að fyrirtækið nái að halda sjó, þrátt fyrir áfallið. „Við höfum borð fyrir báru og vonum að næsta sumar verði betra.“ tobj@mbl.is