Róbert Róbertsson fæddist í Reykjavík 27. maí 1943. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Boðaþingi 1. júní 2020. Móðir hans var Erna Ingólfsdóttir, f. 1924, d. 2003. Hálfsystkini Róberts sammæðra eru Vincent, Mike og Lilja.

Hinn 5. febrúar 1966 giftist Róbert Bergþóru Sigurðardóttur, f. 2. mars 1944, d. 19. desember 2002. Börn þeirra eru: 1) Hulda María, f. 1966, maki Steinar Bragi Stefánsson. 2) Sigurður Arnar, f. 20. maí 1967, d. 12. desember 2005. 3) Erna Bryndís, f. 1975, maki Sigurður Þorgils Guðmundsson. Barnabörn Róberts eru Diljá Hrund, f. 10.2. 1990, Alexander, f. 15.8. 1991, Maria, f. 21.4. 1993, Camilla Hrund, f. 17.8. 1998, Róbert Orri, f. 13.11. 1998, Victor Snær, f. 5.11. 2000, og Arna Bergþóra, f. 16.1. 2009.

Róbert lauk námi í húsgagnasmíði árið 1965 og síðar húsasmíði og vann við iðn sína allt þar til hann veikist árið 1996.

Útför Róberts fór fram í kyrrþey hinn 16. júní 2020 að ósk hins látna.

Elsku besti pabbi. Ég sit hér að skrifa minningargrein um þig sem mér finnst vera svo skrítið. Ég átti ekki von á því að þú færir frá okkur strax. Þú áttir við veikindi að stríða í þó nokkurn tíma en alltaf varstu jákvæður og blíðasti maður sem til var. Kvartaðir aldrei nokkurn tímann, sagðir alltaf „já það er allt í lagi með mig“. Svona varstu og lýsir þetta þér svo vel, hjartahlýrri mann er erfitt að finna.

Ég rifja upp minningarnar um þig og gæti skrifað endalaust því þær eru svo margar en ég minnist þó með hlýju í hjarta og brosi þegar þú sagðir mér endalaust sögur þegar ég var lítil og bækurnar sem ég bað þig að lesa aftur og aftur, alltaf varstu til í það og áttir það til að breyta sögunni, bara til að athuga hvort ég tæki eftir því.

Þú varst svo endalaust hjálpsamur og greiðvikinn og vildir allt fyrir alla gera og taldir aldrei neitt eftir þér. Varst einstaklega góður afi og tengdapabbi. Ég hugga mig við það að núna sértu kominn til mömmu og Sigga bróður sem þú saknaðir svo mikið enda var það mikið áfall þegar þú misstir konuna þína, þið svo ung, og svo son þinn stuttu eftir það. Þú ert mín hetja og ég sakna þín meira en orð fá lýst.

Elska þig pabbi minn, hvíldu í friði.

Þín dóttir,

Erna Bryndís.

Ég minnist Róberts Róbertssonar tengdaföður míns og vinar með hlýhug, en leiðir okkar lágu fyrst saman 2006 þegar við Erna yngri dóttir hans byrjuðum að rugla saman reytum. Þegar við Róbert hittumst í fyrsta skipti fann ég strax að hér var maður að meiru, en þann dag var hann mættur til að passa Camillu barnabarnið sitt á meðan við Erna fórum til New York með eldri dóttir hans og tengdasyni. Það var strax við fyrstu kynni sem ég sá að við myndum eiga góða samleið. Í gegnum þessi ár sem liðin eru síðan höfum við Róbert brallað margt þó að heilsa hans og erfiðleikar hafi spilað þar inn í, sviðaveisla, kjötsúpugerð, nautasteikur sem og alls konar matargerð og annað gamalt og gott var sameiginlegt áhugamál okkar, gátum talað endalaust um að henda einhverju góðu á grillið eða í pottana. Þegar við Erna gerðum upp húsið okkar var hann alltaf innan seilingar með ýmis góð ráð, en Róbert var smiður að mennt. Hann var þó ólíkur mörgum öðrum „ráðgefendum“ þar sem hann gagnrýndi aldrei með neikvæðum hætti, það var alltaf uppbyggjandi sem hann hafði til málanna að leggja, þetta vita margir sem hann þekkja. Mér er minnistætt þega Róbert tefldi við mig, en hann var afar lunkinn skákmaður, ég hélt ég væri að vinna hann en svo kom leikurinn sem öllu breytti þrátt fyrir að hann hafi tvisvar til þrisvar í skákinni boðið mér að „leika til baka“. Þetta lýsir honum svo vel, hann var svo mikill mannvinur og mátti ekkert aumt sjá, ekki einu sinni tengdasoninn tapa fyrir sér í skák. Ljúfmennið Róbert hefur kvatt, margir munu sakna hans sárt og sérstaklega barnabörnin sem áttu æðislegan afa sem hugsaði æðislega vel um þau og gaf þeim mikla athygli í daglegu amstri þeirra. Elsku Róbert tengdafaðir og vinur, nú ert þú kominn í faðminn hjá Beggu þinni og Sigga. Ljúfari manni með jafn mikið æðruleysi hef ég ekki kynnst og þess mun ég sakna því svona eintök af manneskjum er ekki að finna á hverju strái. Ég þakka fyrir allar samverustundirnar sem við höfum átt saman á þessum árum, ég sakna þín, minn kæri vinur. Takk fyrir allt og hvíldu í friði.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Þinn vinur og tengdasonur

Þorgils Guðmundsson.

Elsku afi Ró. Ég trúi ekki að ég þurfi að kveðja þig. Það er ekki hægt að ímynda sér betri afa, þú ert búinn að vera vinur minn frá fyrsta degi og það eru svo margar góðar minningar og stundir sem við höfum átt saman og mun ég varðveita þær eins lengi og ég lifi.

Það var aldrei langt í bros og grín frá þér, en fremst af öllu er hversu mikill kærleikur geislaði frá þér, orkan frá þér svo góð og hlý og er ég þess fullviss að allir sem þekktu þig væru mér sammála.

Ég er svo þakklát og glöð yfir því að við gátum eytt síðastliðnum jólum saman, það voru yndislegar stundir sem hægt er að ylja sér við. Sérstaklega er mér kært eitt kvöldið á aðventunni sem við eyddum saman og bökuðum heilan helling af smákökum og drukkum kaffi. Elsku afi minn, takk fyrir að deila uppskriftinni þinni að besta rauðkáli í heimi, þar voru ekki jól án þess að hafa afarauðkál.

Elsku afi minn, við sem ætluðum að gera svo margt saman í sumar eins og göngutúra niður að vatni. Það mun því miður ekki verða af því, að sinni, en ég á svo góðar minningar frá stundum okkar saman og mun varðveita þær að eilífu.

Það er huggun í harminum að vita af þér í góðum höndum með ömmu og Sigga.

Þangað til við hittumst næst afi Ró.

Þótt döpur sé nú sálin,

þó mörg hér renni tárin,

mikla hlýju enn ég finn

þú verður alltaf afi minn.

(Höf. ók.)

Þín

Diljá Hrund.

Elsku afi minn. Ég hefði aldrei getað óskað mér betri afa en þín og betri mann er varla hægt að finna, góðhjartaður, ljúfur og hjálpsamur.

Afi, þú varst algjör stríðnispúki og hafðir svo gaman af því að plata og stríða okkur krökkunum.

Það sem einkenndi þig hvað helst er hversu barngóður þú varst og mikill dýravinur, þér þótti svo vænt um hundana mína og þeim svo vænt um þig.

Afi, mér leið alltaf svo vel í návist þinni, nærvera þín svo hlý og góð, alltaf jákvæður og með húmorinn í lagi, jafnvel á erfiðum tímum.

Ég á svo margar góðar minningar af okkar samverustundum, það sem stendur upp úr eru allir skemmtilegu ísbíltúrarnir okkar sem við fórum saman og hvað við hlógum mikið.

Ég elska þig afi minn, hef þig í hjartanu og geymi.

Við eigum minningar um brosið bjarta,

lífsgleði og marga góða stund,

um mann sem átti gott og göfugt hjarta

sem gengið hefur á guðs síns fund.

Hann afi lifa mun um eilífð alla

til æðri heima stíga þetta spor.

Og eins og blómin fljótt að frosti falla

þau fögur lifna aftur næsta vor.

(Guðrún Vagnsdóttir)

Þín

María (Mæja).

Elsku afi, þótt þú sért farinn frá okkur finn ég fyrir þér meira en nokkurn tímann. Betri afa er ekki hægt að finna. Ég mun aldrei gleyma tímanum okkar saman þegar ég, Róbert og Victor gistum alltaf hjá þér, horfðum á myndir saman og borðuðum nammi og spiluðum. Þú kenndir mér að tefla og mér fannst alltaf svo skemmtilegt að tefla við þig, þótt þú ynnir alltaf. Þú ert risastór partur af lífi mínu og það mun aldrei breytast. Allar minningarnar mun ég varðveita að eilífu. Það verður erfitt að sjá þig ekki lengur en ég veit að þú ert á betri stað og munt vera hjá mér og passa upp á mig. Takk fyrir að vera þú, vera fyrirmynd fyrir öll barnabörnin þín og elska okkur eins og þú gerðir. Minning þín mun lifa í okkur öllum.

Þangað til næst, ég elska þig.

Camilla Hrund.

Afi var ljúfur og góður og hann var besti afi sem hægt var að hugsa sér, hann t.d. gaf mér alltaf allt nammið sitt. Það var alltaf gott að hitta afa. Afi hafði gaman af að sjá myndirnar sem ég var að teikna og mála og spurði mig alltaf hvort ég væri búin að mála nýja mynd. Þegar ég kom til hans sagði hann alltaf: „Hæ, elskan mín!“ Ég elska hann mjög mikið.

Arna Bergþóra.

Nú verða sumarbústaðaferðirnar ekki fleiri með vinum mínum og frændum, þeim Óskari og Róberti eða Bibba eins og fjölskylda mín kallaði hann alltaf. Í þessa árlegu ferð fórum við einungis þrír frændurnir og fylgdi henni alltaf mikil tilhlökkun, þar sem við nutum kyrrðar sveitarinnar og náttúru ásamt því að grilla eftirlætisrétt okkar ásamt öllu tilheyrandi. Margt spaugilegt kom upp á í þessum ferðum og höfðum við Bibbi sérstaklega gaman af frænda okkar Óskari, sem alltaf var hrókur alls fagnaðar og hnyttinn í öllum tilsvörum.

Bibbi var þriggja ára þegar ég fæddist, og var mikill samgangur á milli fjölskyldna okkar, þótt hann byggi á uppeldisárum sínum við Laugateig en ég á Ásvallagötu. Þá var mjög vinsælt að fara í gömlu sundlaugarnar, sem voru skammt frá æskuheimili Bibba. Hann ólst upp hjá Lilju ömmu okkar og síðar hjá Dóru Maríu móðursystur.

Foreldrar mínir áttu sumarhús í Sléttuhlíðinni fyrir ofan Hafnarfjörð og voru farnar þangað margar ferðir þar sem við Bibbi spiluðum fótbolta, tefldum skák og fórum í alls konar leiki ásamt því að ganga á Helgafell og fara inn í 100 metra hellinn þar skammt frá. Á þeim tíma sáum við aldrei neinn á fjallinu, en nú er þetta orðin afar fjölsótt gönguleið.

Bibbi nam við Iðnskólann og útskrifaðist þaðan bæði sem húsgagna- og húsasmiður og vann við þá iðju alla tíð meðan heilsa hans leyfði. Það var alltaf gott að leita til Bibba með ýmislegt sem þurfti að laga heima fyrir og alltaf kom hann glaðbeittur og lagfærði hlutina enda mikill hagleikssmiður.

Síðar fengum við Ingó bróðir Bibba til að byggja nýjan bústað í Sléttuhlíðinni. Það var lítið mál og var hann reistur á nokkrum mánuðum og var allt handbragð hans til fyrirmyndar og hefur fjölskyldan notað hann síðan eða þar til kveikt var í honum fyrr á þessu ári. Þegar ég sagði honum frá þessu atviki á sjúkrahúsinu varð hann jafn dapur og ég enda unni hann Sléttuhlíðinni og þessum bústað, sem hann hafði smíðað.

Ástin og vinur í lífi Bibba var Begga eiginkona hans, sem dó langt um aldur fram aðeins 58 ára gömul. Við Helga minnumst margra ánægjulegra heimsókna og samverustunda með þeim hjónum. Þremur árum seinna varð Bibbi fyrir öðru stóru áfalli er hann missti Sigurð Arnar son sinn í bílslysi.

Heilablóðfall gerði síðan líf Bibba erfiðara á seinni árum, en þegar við hittumst sýndi hann alltaf sama jafnaðargeðið, talaði um lífið og tilveruna og aldrei heyrði ég hann hallmæla nokkrum manni.

Að leiðarlokum sendi ég dætrum Bibba, þeim Ernu Bryndísi og Huldu Maríu, og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Megi minningin um góðan dreng lifa.

Gunnar Hjaltalín.