Sigríður Ingibjörg B. Kolbeins fæddist í Brekkubæ í Nesjum í Hornafirði 13. júlí 1927. Hún lést 6. júlí 2020 á Hrafnistu í Hafnarfirði.

Foreldrar Sigríðar Ingibjargar voru Bjarni Bjarnason, f. 10.5. 1897, d. 12.3. 1982, bóndi, organisti og fræðimaður, fæddur á Brunasandi í Vestur-Skaftafellssýslu, og Ragnheiður Sigjónsdóttir, f. 11.4. 1892, d. 22.12. 1979, húsfreyja, fædd á Fornustekkjum í Nesjum. Bræður Sigríðar Ingibjargar voru Sigjón Bjarnason, f. 16.6. 1931, d. 18.7. 2017, bóndi og söngstjóri, og Baldur Bjarnason, f. 13.8. 1936, d. 19.5. 2010, vélstjóri og útgerðarmaður.

Sigríður giftist 30.6. 1951 Gísla H. Kolbeins, f. 30.5 1926, d. 10.6. 2017. Foreldrar Gísla voru Halldór Kristján Kolbeins, f. 16.2. 1893, d. 29.11. 1964, prestur, og Lára Ágústa Ólafsdóttir Kolbeins, f. 26.3. 1898, d. 18.3. 1973, húsfreyja.

Sigríður og sr. Gísli hófu búskap í Sauðlauksdal, en árið 1954 fluttu þau að Melstað í Miðfirði og bjuggu þar í 23 ár. Árið 1977 fluttu þau í Stykkishólm og bjuggu þar til 1992 er þau fluttu á höfuðborgarsvæðið.

Börn sr. Gísla og Sigríðar Ingibjargar eru 1) Bjarnþór, f. 17.6. 1952, stærðfræðingur og kennari. 2) Anna Lára, f. 3.10. 1954, sjúkraliði, gift Halldóri Bergmann pípulagningameistara. Börn þeirra eru: 0 a) Arnar Már, f. 1977, kvæntur Ýri Hnikarsdóttur, þau eiga þrjú börn. b) Þorbjörg, f. 1982. c) Gísli, f. 1984. 3) Ragnheiður, f. 18.8. 1957, húsfreyja, gift Svavari Haraldi Stefánssyni bónda. Börn þeirra eru: a) Ingibjörg Fanney, f. 1979, gift Helga Rafni Gunnarssyni, þau eiga þrjú börn. b) Stefán Gísli, f. 1985, kvæntur Unni Gottsveinsdóttur, þau eiga tvö börn. c) Ólafur Bjarni, f. 1986, sambýliskona hans er Wioleta Zelek. d) Óskar Smári, f. 1992, unnusta hans er Hugrún Þorsteinsdóttir. e) Baldur Ingi, f. 1993, sambýliskona hans er Sigrún Andrea Gunnarsdóttir, þau eiga eitt barn. f) Bryndís Rut, f. 1995, sambýlismaður hennar er Alex Már Sigurbjörnsson. 4) Halldór, f. 28.12. 1965, ljósmyndari. Börn hans eru: a) Steinar Ingi, f. 1997, móðir hans er Elín Hjálmsdóttir. b) Sigríður Björk, f. 2000, móðir hennar er Unnur Ármannsdóttir. 5) Eyþór Ingi, f. 3.10. 1971, tónlistarskólastjóri, kvæntur Dagnýju Marinósdóttur tónlistarkennara. Börn þeirra eru: Helga Sigríður, f. 2004, Þórey María, f. 2008, og Sigrún Ásta, f. 2013.

Sigríður ólst upp í Brekkubæ í Nesjum í Hornafirði og hlaut hefðbundna menntun heima fyrir auk þess að stunda tónlistarnám hjá föður sínum. Veturinn 1949-1950 stundaði Sigríður nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, meðal annars hjá píanókennaranum Lansky-Ottó. Veturinn1950-1951 stundaði hún nám við Húsmæðraskólann í Reykjavík. Sigríður sótti mörg organistanámskeið Þjóðkirkjunnar í Skálholti. Hún fór einnig í námsferðir til útlanda á vegum Söngmálastjóra Þjóðkirkjunnar.

Ásamt því að reka stórt heimili með vinnufólki og sumarkrökkum var frú Sigríður organisti í kirkjum í Melstaðarprestakalli frá árinu 1955 og kenndi á píanó heima. Stofnaði hún kirkjukórinn við Melstaðarkirkju. Einnig stjórnaði hún samsöng og kenndi píanóleik í barnaskólanum á Laugarbakka. Kaflaskil urðu í lífi hennar þegar þau hjónin fluttu í Stykkishólm árið 1977 og hún hóf að kenna á píanó og orgel í Tónlistarskóla Stykkishólms á árunum 1978 til 1992. Af þessu hafði hún mikla ánægju og sinnti hún starfi sínu af mikilli alúð og ástríðu. Í Stykkishólmi sinnti hún líka organistastarfi við Stykkishólmskirkju í hlutastarfi og sem organisti í sveitakirkjunum. Þá söng hún með kirkjukór Stykkishólmskirkju. Eftir að þau fluttu til Reykjavíkur árið 1992 hélt hún áfram að taka að sér píanónemendur í tíma á heimili sínu. Sigríður starfaði einnig sem orgelleikari við athafnir á Droplaugarstöðum og tók þátt í kórastarfi á höfuðborgarsvæðinu.

Útförin fer fram frá Háteigskirkju í dag, 13. júlí 2020, klukkan 15.

Elsku tengdamamma, kallið er komið.

Minningarnar eru margar og góðar enda samveran mikil á þessum 20 árum sem ég hef verið svo heppin að fá að tilheyra fjölskyldunni. Þú tókst mér opnum örmum og góð og traust vinátta myndaðist okkar á milli. Fyrstu sambúðarár okkar Eyþórs áttum við heima í nágrenni við ykkur og var mikill samgangur á milli. Minningar um heitar pönnukökur og heimsins bestu skonsur koma upp í hugann. Þú varst mikill húmoristi og það var alltaf stutt í grín og glens hjá þér. Þú varst hrein og bein en á sama tíma afar hlý.

Við gátum spjallað um allt milli himins og jarðar og áttum ýmis sameiginleg áhugamál, m.a. tónlistina. Ég minnist þeirra stunda með hlýju þegar við spiluðum saman á hljóðfærin okkar. Tónlistaráhuginn var einlægur fram á síðustu stundu og alltaf gladdi það þig mikið þegar stelpurnar spiluðu fyrir þig á píanóið á Hrafnistu. Þú lygndir aftur augum og hlustaðir. Oftar en ekki komu upp í huga þinn minningar um það þegar þú varst í píanónámi og spilaðir verk eftir meistarana. Þið Helga Sigríður gátuð talað tímunum saman um píanóverkin og hvernig lífið var þegar þú varst í tónlistarnámi.

Stundirnar þegar þú settist við píanóið og við fjölskyldan sungum með voru líka dásamlegar. Ótrúlegt var að fylgjast með þér á tíræðisaldri spila, ef sama lagið var sungið tvisvar var undirspilið hjá þér ekki eins, alltaf voru einhver tilbrigði sem sýndi hversu músíkölsk þú varst.

Elsku besta tengdamamma, takk fyrir allt. Minningarnar lifa í hjörtum okkar.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

(Valdimar Briem)

Þín tengdadóttir,

Dagný Marinósdóttir.

Ein er upp til fjalla,

yli húsa fjær,

út um hamrahjalla,

hvít með loðnar tær,

(Jónas Hallgrímsson)

Óhræsið eftir Jónas Hallgrímsson er líklegast mín fyrsta minning um ömmu mína, Sigríði Ingibjörgu Bjarnadóttur Kolbeins. Þarna sat ég undir eldhúsborðinu í Lágholti 5, líklegast ekki nema 5 ára og hlustaði á frænda minn þylja hvað eftir annað þetta fallega ljóð. Aldrei ætlaði drengurinn að læra ljóðið og allra síst þegar litla gerpið undir borðinu þuldi fyrsta erindið án hnökra. Ég er ekki viss um að elsku frændi minn sé enn búinn að fyrirgefa mér lærdóminn en minningin er falleg engu að síður. Hún lýsir vel þeirri þrautseigju og þolinmæði sem amma bjó yfir. Sem prestfrú og organisti í þeim kirkjum sem afi þjónaði hafði hún nóg fyrir stafni alla tíð enda æði oft gestagangur á heimili þeirra hjóna. Hvort sem um var að ræða embættismenn, kirkjugesti eða börn úr Reykjavík send í vist yfir sumarið var öllum gestkomandi tekið opnum örmum. Amma var sérlega barngóð og voru þau ófá börnin í stórfjölskyldunni sem hún tók inn á sitt heimili, hvort sem það var á Melstað eða í Stykkishólmi. Sumrin fyrir vestan voru sem ævintýri, bátsferðir um eyjarnar með afa, dorgað á bryggjunni eða leikið um holtin með félögunum. Dagurinn endaði þó alltaf eins, kvöldkaffi í eldhúskróknum með ömmu. Þar var boðið upp á dýrindisveitingar, rúllutertur og jólakaka voru sérgrein ömmu og næsta víst að aðrar eins veitingar gat lítill drengur vart óskað sér. Eitt er það þó sem ég tengi umfram allt þetta við ömmu mína, hún átti alltaf til kandís. Þessi grjótharði sykurmoli var í miklu uppáhaldi hjá henni og sjaldan sá maður ömmu með bolla nema einn eða tveir molar væru nærri. Aldrei að vita nema nokkrir molar fylgi henni þennan seinasta spöl fram undan.

Arnar, Ýr og börn.

Elsku amma.

Takk fyrir alla gleðina, hláturinn, knúsin og minningarnar. Það var fátt skemmtilegra en að heyra sögurnar þínar frá því í gamla daga með fullan munninn af heilögu Mozartkúlunum, eins og þú kallaðir þær alltaf. Einnig voru ófá skiptin sem við fengum að spila fyrir þig á píanóið, þér fannst það alltaf svo gaman og söngst jafnvel með. Minningarnar með þér eru óteljandi og munu alltaf fá okkur til að brosa.

Tilhugsunin að þú sért ekki lengur hérna hjá okkur er nánast óbærileg en samt sem áður vitum við nú að þið afi eruð loks sameinuð á ný og það gleður okkur. Þín verður sárt saknað, elsku amma en þú munt ávallt lifa í hjörtum okkar.

Við elskum þig til tunglsins og til baka.

Helga Sigríður,

Þórey María og

Sigrún Ásta.