[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Svava Rós Guðmundsdóttir átti stórleik fyrir Kristianstad þegar liðið heimsótti Vittsjö í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardaginn. Leiknum lauk með 3:3-jafntefli en Svava Rós gerði sér lítið fyrir og skoraði tvívegis í leiknum, á 18. og...

* Svava Rós Guðmundsdóttir átti stórleik fyrir Kristianstad þegar liðið heimsótti Vittsjö í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardaginn. Leiknum lauk með 3:3-jafntefli en Svava Rós gerði sér lítið fyrir og skoraði tvívegis í leiknum, á 18. og 28. mínútu, en hún lék allan leikinn. Liðið er með 1 stig eftir fyrstu þrjár umferðir tímabilsins í ellefta og næstneðsta sæti deildarinnar en alls eru fimm lið með 1 stig. Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari liðsins.

* Jón Dagur Þorsteinsson lagði upp annað mark AGF þegar liðið fékk Mikael Anderson og liðsfélaga hans í Midtjylland í heimsókn í úrslitariðli dönsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í Århus í gær. Leiknum lauk með 3:0-sigri AGF en Jón Dagur var í byrjunarliði AGF í leiknum og Mikael var í byrjunarliði Midtjylland. Mikael var skipt af velli á 62. mínútu fyrir Anders Dreyer en Jón Dagur fór af velli undir lok leiksins fyrir Alex Gersbach. AGF styrkti stöðu sína í þriðja sæti úrslitariðilsins, en liðið er með 60 stig í þriðja sæti riðilsins, 8 stigum meira en Bröndby sem er í fjórða sætinu, og tveimur stigum minna en FCK sem er í öðru sætinu.

Midtjylland tryggði sér hins vegar danska meistaratitilinn í annað skiptið á þremur árum á fimmtudaginn í síðustu viku með 3:1-sigri gegn FCK.

* Birkir Bjarnason var í byrjunarliði ítalska knattspyrnufélagsins Brescia, sem tapaði 3:0 á heimavelli fyrir Roma á laugardaginn síðasta. Birki var skipt af velli á 58. mínútu en Brescia er í nítjánda og næstneðsta sæti deildarinnar með 21 stig þegar átta umferðir eru eftir af tímabilinu, 10 stigum frá öruggu sæti.

* Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði fimmta mark sitt á tímabilinu í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar lið hans Aalesund fékk skell á heimavelli gegn Alfons Sampsted og félögum hans í Bodö/Glimt í gær, en leiknum lauk með 6:1-sigri Bodö/Glimt.

Hólmbert jafnaði metin fyrir Aalesund á 30. mínútu í stöðunni 1:0 en bæði hann og Davíð Kristján Ólafsson léku allan leikinn fyrir Aalesund og þá lék Daníel Leó Grétarsson fyrstu 63. mínútur leiksins með Aalesund.

Alfons Sampsted lék allan leikinn í hægri bakvarðarstöðunni með Bodö/Glimt, sem er með 21 stig í efsta sæti deildarinnar með fullt hús stiga en Aalesund er í sextánda og neðsta sætinu með 3 stig.