Fritz Már Berndsen Jörgensson
Fritz Már Berndsen Jörgensson
Eftir Fritz Má Berndsen Jörgensson: "Ég fagna fjölbreytninni, fagna auknum möguleikum, fagna því að sjá bókina eignast nýtt líf í rafrænni veröld."

Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarið um aðkomu Storytel á íslenskan bókamarkað. Að ákveðnu leyti hefur sú umræða verið neikvæð af hálfu rithöfunda og nú síðast gaf stjórn rithöfundasambandsins það út að rithöfundar vantreystu Storytel.

Sjálfur hef ég verið félagi í Rithöfundasambandinu í 13 ár og á þessum tíma gefið út fimm bækur og sú sjötta er væntanleg á næstu vikum. Ég hef átt í samskiptum við Storytel í nokkurn tíma, bækurnar mínar hafa allar verið framleiddar af Storytel sem hljóðbækur og ég geri fastlega ráð fyrir að svo verði einnig með nýju bókina mína. Ég er afar ánægður með samstarfið og fagna aðkomu Storytel að íslenskum bókamarkaði.

Rithöfundar og bókaútgefendur standa á þröskuldi byltingar. Bækur eru gefnar út á prenti, sem rafbækur og sem hljóðbækur. Höfundar fá þar með möguleika á að selja fleirum sín höfundarverk, fólk sem til dæmis getur ekki lesið vegna lesblindu eða annarra takmarkana á lestrargetu getur nú notið þess að hlusta. Þeir sem ferðast mikið geta tekið með sér bækur í símunum sínum og lesið þær hvar og hvenær sem er, án þess að þurfa að burðast með þunga bókapinkla í farteskinu. Og þeir sem elska prentaðar bækur geta notið þess að finna lyktina af pappír og prentsvertu og þess að handleika þær og lesa. Og svo eru sumir, eins og ég sjálfur, sem nota öll þessi form eftir því í hvaða aðstæðum ég er í og jafnvel eftir því hvað það er sem ég er að lesa hverju sinni.

Á dögunum kom það upp að bókabúðir Eymundsson, sem eru með markaðsráðandi stöðu í bóksölu á Íslandi, skiluðu öllum nýlegum bókum frá bókaforlaginu Uglu. Ástæðan var sú að bækurnar höfðu einnig verið framleiddar sem hljóðbækur hjá Storytel. Það væri nær fyrir rithöfundasambandið að beina sjónum sínum að þessu ráðslagi Eymundsson, frekar en því að Storytel kaupi íslenskt bókaforlag, jafnframt því að auka útgáfumöguleika íslenskra höfunda til mikilla muna.

Ég fagna fjölbreytninni, fagna auknum möguleikum, fagna því að sjá bókina eignast nýtt líf í rafrænni veröld. Ég hlakka til að sjá hvernig bókin mun þróast á komandi árum og hlakka til að sjá hvernig markaðurinn mun breytast og þróast í takt við tímann en tel mig líka vita að gamla góða bókin, rétt eins og gamla góða vínylplatan, muni lifa áfram um ókomna tíð.

Höfundur er prestur og rithöfundur. fritzmarj@gmail.com

Höf.: Fritz Má Berndsen Jörgensson