Nýlega las ég orð eftir frægan prédikara, þar sem sagði, að djöfullinn þyrfti að nærast á syndum hins fallna heims til að lifa. Þessi dæmisaga hafði sterk áhrif á mig. Að hugsa sér sællífi Satans, sem hann nýtur með því að nærast á illum hugsunum og gjörðum syndugra manna, sem eru forðabúr hans og hans illu ára. Hvílíkar kræsingar og matarboð, sem honum er boðið upp á á hverjum degi. Með illri breytni bjóða margir menn kölska til veislu sérhvern dag.
Guð, á hinn bóginn, skapari okkar mannanna, hefur boðið mönnunum að gjöra gott. „Vér erum smíð Guðs, skapaðir í Kristi Jesú til góðra verka.“ (Efesusbréfið 2:10.) Andstætt kölska, sem í sjálfselsku og af eigingirni lifir í sællífi á illri breytni manna, nýtur Guð sjálfur ekki beinlínis góðs af kærleiksverkum ljúflinganna, enda fullkominn í eigin verund. Það eru mennirnir, sem skapaðir eru í Guðs mynd, sem njóta ávaxta góðverkanna. Þeir lifa ekki á umhyggju fyrir sjálfum sér, heldur á kærleikanum, sem býr í náunga þeirra, eins og Leo Tolstoj orðaði á svo eftirminnilegan hátt í ritsmíðum sínum.
Einar Ingvi Magnússon.