Tjaldsvæði á Suðurlandi voru vinsæl um helgina, enda veður gott og margir komnir í sumarleyfi. Á Laugalandi í Holtum í Rangárþingi ytra var fólk í á annað hundrað farhýsum og tjöldum og gestir vel á fimmta hundrað. „Íslendingar eru duglegir að ferðast. Fólk lætur ekki slá sig út af laginu, margir hefðu væntanlega verið í útlöndum á þessum tíma en nú þegar hindranir eru uppi er landinn á landinu,“ segir Engilbert Olgeirsson, sem ásamt Rán Jósepsdóttur konu sinni rekur tjaldsvæðið að Laugalandi.
Vinsælt er meðal fjölskyldufólks að dveljast að Laugalandi og um helgina var þar hópur vinnufélaga í sumarferð, stórfjölskylda hélt lítið ættarmót. Á tjaldsvæðinu voru einnig nýbökuð brúðhjón sem efndu til veislu fyrir vini og vandamenn í íþróttahúsi á staðnum. Þá segir Engilbert að fólk sé sér vel meðvitað um fjarlægðarmörk og sóttvarnir og sýni skynsemi í því sambandi.
Rafmagn og þægindi
„Margir spyrja hvaða afþreying sé í boði og vissulega er heilmargt hér í kring, en svo velja margir líka bara að vera á tjaldsvæðunum í sólinni og leikaðstaðan hér fyrir krakkana er mjög fín,“ segir Engilbert og enn fremur:„Margir velta fyrir sér hversu margir megi vera í hverjum reit á tjaldsvæðunum með tilliti til sóttvarna. Að fólk hafa slíkt í huga er mjög gott. Svo spyr fólk líka hvort nægt rafmagn sé fyrir ferðavagna, sem oftast er. Fólk vill þægindi og góða aðstöðu í útilegunni.“
Fljótshlíðin var fjölsótt um helgina og í flugferð blaðamanns sást að margir dvöldust á tjaldsvæðunum þar í sveit. Svipaða sögu má segja frá öðrum ferðamannastöðum á Suðurlandi,
Varúð á Flúðum
„Yfir sumarið vilja Íslendingar fara í útilegur og gista á tjaldsvæðum. Því finnst mér skjóta svolítið skökku við að ferðagjöf stjórnvalda gildi ekki á stöðum eins og hér,“ segir Birgir Guðjónsson, sem rekur tjaldsvæðið á Flúðum. Því hefur verið skipt upp í nokkra reiti með tilliti til gestafjölda og varúðar vegna kórónuveirunnar. Sá viðbúnaður hefur virkað vel og allt gengið eins og í sögu. Ljóst er þó að takmarka þarf fjölda gesta á tjaldsvæðunum um verslunarmannahelgina og hátíðahöld á Flúðum þar og þá verða með öðru og lágstemmdara móti en undanfarin ár. sbs@mbl.is