England
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Þrátt fyrir að Liverpool hafi tryggt sér Englandsmeistaratitilinn í knattspyrnu 25. júní þegar sjö umferðir voru eftir af tímabilinu er áfram mikil spenna í ensku úrvalsdeildinni, bæði á toppi sem botni.
Liðin í 16.–19. sæti deildarinnar unnu öll leiki sína um helgina og því geta enn fimm lið fallið úr deildinni þegar þrjár umferðir eru eftir af tímabilinu. Norwich er hins vegar fallið eftir 4:0-tap á heimavelli gegn West Ham.
Þá er áfram hörð barátta um síðustu Evrópusætin, en Liverpool er eina liðið sem er öruggt um sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð eins og staðan er í dag.
Undir eðlilegum kringumstæðum væri Manchester City það líka en örlög City ráðast í dag þegar Alþjóða íþróttadómstóllinn tekur ákvörðun um það hvort áfrýjun félagsins verður tekin til greina, en City var dæmt í tveggja ára bann frá Evrópukeppnum í febrúar á þessu ári.
Chelsea, Leicester, Manchester United og Wolves verða að teljast líklegust til þess að ná sæti í Meistaradeildinni en þá eru Sheffield United, Tottenham, Arsenal og Burnley öll í baráttunni um sæti í Evrópudeildinni þar sem áttunda sæti deildarinnar mun að öllum líkindum gefa þátttökurétt í Evrópudeildinni.
*Jóhann Berg Guðmundsson kom inn á sem varamaður á 65. mínútu fyrir Burnley í 1:1-jafntefli liðsins gegn Liverpool á laugardaginn og var nálægt því að tryggja Burnley sigur þegar skot hans úr teignum hafnaði í þverslánni á 88. mínútu. Fram að leiknum hafði Liverpool unnið alla heimaleiki sína á tímabilinu.
*Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Everton, sem fékk 3:0 skell á útivelli gegn Wolves. Þetta var 26. byrjunarliðsleikur Gylfa á tímabilinu en hann skoraði ekki hátt í einkunnagjöf Liverpool Echo frekar en aðrir leikmenn Everton og fékk 5 fyrir frammistöðu sína.
*Michail Antonio, leikmaður West Ham, gerði sér lítið fyrir og skoraði öll fjögur mörk West Ham í 4:0-sigri gegn Norwich. Hann er 27. leikmaðurinn sem tekst að skora fjögur mörk eða fleiri í leik í úrvalsdeildinni frá því að hún var stofnuð í núverandi mynd árið 1992.
*Dominic Solanke skoraði fyrstu mörk sín á tímabilinu eftir 29 leiki þegar hann skoraði tvívegis í 4:1-sigri Bournemouth gegn Leicester í Bournemouth. Leicester hefur aftur á móti aðeins unnið einn leik í deildinni síðan keppni hófst að nýju eftir kórónuveirufaraldurinn. Þá hefur Leicester aðeins fengið 6 stig af 18 mögulegum.
*Tottenham er komið upp í áttunda sæti deildarinnar eftir 2:1-sigur gegn Arsenal í nágrannaslag liðanna á Tottenham Hotspur-vellinum í London í gær. Það var Belginn Toby Alderweireld sem tryggði Tottenham sigur í leiknum með skallamarki eftir hornspyrnu.