Steinavötn Brúin er um 100 m löng og kemur í stað bráðabirgðabrúar eftir að gamla brúin skemmdist í flóðum.
Steinavötn Brúin er um 100 m löng og kemur í stað bráðabirgðabrúar eftir að gamla brúin skemmdist í flóðum. — Morgunblaðið/GSH
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Tvær af þeim fjórum brúm sem Ístak er að byggja fyrir Vegagerðina við hringveginn á Suðurlandi eru á áætlun. Þær leysa af hólmi einbreiðar brýr. Tafir hafa hins vegar orðið á hinum tveimur, af mismunandi ástæðum.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Tvær af þeim fjórum brúm sem Ístak er að byggja fyrir Vegagerðina við hringveginn á Suðurlandi eru á áætlun. Þær leysa af hólmi einbreiðar brýr. Tafir hafa hins vegar orðið á hinum tveimur, af mismunandi ástæðum.

Vinna við brýrnar yfir Steinavötn í Suðursveit og Kvíá í Öræfum gengur samkvæmt áætlun, að sögn Arons Bjarnasonar, verkefnastjóra hjá Vegagerðinni. Verða þær teknar í notkun í haust.

Fækkar um þrjár í ár

Tafir hafa orðið við gerð brúar yfir Fellsá í Suðursveit vegna samninga við landeigendur og verður hún ekki tekin í notkun fyrr en á næsta ári. Vonast Aron til að það takist að ljúka nýrri brú á Brunná í Fljótshverfi á þessu ári en vatnavextir hafa tafið brúargerð þar.

Á næsta ári var fyrirhugað að byggja nýja brú á Jökulsá á Sólheimasandi og Hverfisfljót í Skaftárhreppi. Hvorug þeirra hefur verið boðin út. Jökulsá er mikil framkvæmd og dýr og hefur staðið á fjármögnun. Hún er umferðarmesta einbreiða brúin á Hringveginum enda liggur hún að nokkrum vinsælustu ferðamannastöðum Suður- og Suðausturlands. Verið er að hanna brúna á Hverfisfljót.

Gangi þessar áætlanir eftir fækkar einbreiðum brúm á Hringveginum um þrjár á þessu ári og verða þá eftir 33, og hugsanlega um þrjár til viðbótar á næsta ári.

Enginn bauð í Botnsá

Vegagerðin bauð nýlega út gerð tveggja nýrra brúa á Vestfjörðum sem leysa eiga af hólmi einbreiðar brýr. Til þeirra fékkst flýtifé í efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar.

Kubbur ehf. bauðst til að byggja brúna á Bjarnardalsá í Önundarfirði fyrir um 288 milljónir kr. sem er 9% yfir áætluðum verktakakostnaði. Samningum er ekki lokið. Hins vegar kom ekkert tilboð í gerð brúar á Botnsá í Tálknafirði. Ekki hefur verið ákveðið hvernig brugðist verður við þeirri stöðu.