Frans páfi sagðist í gær „mæddur mjög“ yfir ákvörðun Tyrkja að breyta Soffíukirkjunni (Ægisif), minnisvarðanum frá tímum Býsans, aftur úr safni í bænahús múslima.
„Hugsanir mínar reika til Istanbúl, ég velti Ægisif fyrir mér, armæddur mjög,“ segir í fyrstu viðbrögðum páfastólsins, en ákvörðun Tyrkja um breytt hlutverk bænahússins hefur verið gagnrýnd um jarðir allar.
Dagblað Vatíkansins, Osservatore Romano, sagði frá alþjóðlegri gagnrýni í fyrradag án eigin umsagnar um ákvörðun Tyrkja frá því á föstudag.
Ægisif hefur verið helsta aðdráttaraflið fyrir ferðamenn sem leggja leið sína til Istanbúl. Hún var reist sem dómkirkja keisaradæmisins Býsans en breytt í mosku við tilurð Tyrkjaveldis í Konstantínópel árið 1453. Hún er á skrá UNESCO yfir verndaðar minjar.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, tilkynnti fyrir helgi að bænir hæfust í moskunni 24. júlí. Hann hefur á undanförnum árum margsinnis haft á orði að breyta þyrfti nafni Soffíukirkju og breyta í bænahús múslima. Árið 2018 las hann ritningargreinar úr Kóraninum í kirkjunni.
Ákvörðun Erdogans á sér stað skömmu eftir að tyrkneskur dómstóll ógilti ákvörðun ríkisstjórnar Mustafa Kemal Ataturk frá 1934 um að breyta bænahúsinu í safn. agas@mbl.is