Helgi Magnússon fæddist á Snældubeinsstöðum í Reykholtsdal í Borgarfirði 4. febrúar 1929. Hann lést á sjúkrahúsi Akraness 25. júní 2020.

Foreldrar hans voru Jón Magnús Jakobsson, bóndi og kennari og Sveinsína Arnheiður Sigurðardóttir, húsfreyja. Helgi var næstelstur fimm systkina, hin eru: Jakob, Sigurður, Kristín og Herdís og eru Jakob og Kristín látin.

Helgi kvæntist 13. maí 1965 Ragnhildi Gestsdóttur frá Giljum í Hálsasveit sem lést 30. júlí 2003. Þau bjuggu að Snældubeinsstöðum allan sinn búskap.

Börn þeirra eru Gestur Helgason, f. 1963, kvæntur Önnu Karen Kristinsdóttur; Þóra Helgadóttir, f. 1965, gift Gunnari Ármannssyni, á Þóra tvö börn, Tómas Dan og Maríu Theódóru með Jóni Dan Einarssyni sem er látinn, Gunnar á Fjólu Hreindísi; Arnheiður Helgadóttir, f. 1968, gift Árna Múla Jónassyni og eiga þau fjögur börn: Ragnhildi, Jónas, Jón og Inga; Magnea Helgadóttir, f. 1974, í sambúð með Guðjóni Guðmundssyni og eiga þau einn son, Helga. Fyrir á Guðjón tvo syni, Arnar og Hilmar.

Árið 2008 hóf Helgi sambúð með Erlu Rögnu Hróbjartsdóttur sem lést 14. september 2014. Dóttir hennar er Helga Margrét Þórhallsdóttir.

Útförin fór fram í kyrrþey.

Nú húmi slær á hópinn þinn,

nú hljóðnar allur dalurinn

og það, sem greri á þinni leið

um því nær heillar aldar skeið.

Vor héraðsprýði horfin er:

öll heiðríkjan, sem fylgdi þér.

Og allt er grárra en áður var

og opnar vakir hér og þar.

Þér kær var þessi bændabyggð,

þú battst við hana ævitryggð.

Til árs og friðar – ekki í stríð –

á undan gekkstu í háa tíð.

Þitt starf var farsælt, hönd þín hlý

og hógvær göfgi svipnum í.

Þitt orð var heilt, þitt hjarta milt

og hugardjúpið bjart og stillt.

Loks beygði þreytan þína dáð,

hið þýða fjör og augnaráð;

sú þraut var hörð – en hljóður nú

í hinsta draumi brosir þú.

(Jóhannes úr Kötlum)

Elsku pabbi okkar, án þín verður líf okkar aldrei eins. Þín er sárt saknað, takk fyrir allt.

Hvíl í friði.

Gestur, Þóra,

Arnheiður og Magnea.

Helgi á Snældu þurfti ekki að lesa mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna til að vita að „allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum“. Það var svo sjálfsagt fyrir honum að það ætti ekki að þurfa að taka þetta fram. Og þannig kom hann fram við alla. Hann hélt alltaf með þeim sem voru órétti beittir og hafði einlæga samúð með fólki sem átti undir högg að sækja.

Hann var fullkomlega laus við fordóma, yfirlæti, snobb, öfund eða illkvittni, án þess að hafa nokkra þörf fyrir að auglýsa það sérstaklega. Hann lifði lífi sínu sáttur og í sátt við aðra.

Hann var mikill dýravinur og passaði alltaf vel upp á að hundarnir fengju sitt og líka sinn hluta af hamborgarhryggnum á jólunum og alltaf var þess gætt að geyma bein og annað góðgæti sem krummi kunni vel að meta.

Hann var góðlyndur og glettinn og félagslyndur þó að hann væri svo sem ekkert mjög upptekinn af því að mæta á allar samkomur og skemmtanir. Hann var hlýr og það var augljóst að honum þótti mjög vænt um börnin sín og afkomendur þeirra. Hann fylgdist af áhuga með því sem þau voru að bauka í leik og starfi og gladdist yfir því sem vel gekk, án þess þó að gera of mikið úr því. Hann þurfti ekki að predika yfir afkomendum sínum að honum leiddist sjálfumgleði. Þeir vissu það.

Óhóf og græðgi var ekki til í honum og hann hafði engan áhuga á að sanka að sér peningum eða öðrum veraldlegum eigum. Lúxus og annar hégómi af því tagi var alveg utan við hans líf og veruleika en hann kunni vel á vélar og vildi geta komist ferða sinna. Bíllinn varð að vera í góðu lagi og svo fúlsaði hann sjaldan við góðum kleinum.

Mjög margir taka örugglega undir það sem bróðir minn og föðurbróðir okkar sagði þegar hann heyrði af andláti Helga: „Þetta var asskoti góður karl.“

Við eigum ekki eina einustu vonda minningu um Helga, tengdapabba okkar og afa, vegna einhverra orða hans eða gerða en óendanlegan aragrúa af góðum og hlýjum minningum.

Það líður öllum svo miklu betur og verða jafnvel sjálfir heldur skárri sem fá að umgangast mann eins og Helga á Snældu. Og við erum mjög þakklát fyrir að hafa fengið það.

Takk fyrir okkur, elsku afi og tengdapabbi.

Árni Múli og Ragnhildur, Jónas, Jón og

Ingi Árnabörn.