Sigurborg Ósk Haraldsdóttir
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir
Eftir Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur: "Áratugir þar sem mönnum líkt og Davíð Oddssyni og Robert Moses fannst sjálfsagt að fórna öllu fyrir hraðbrautir eru í dag hluti af fortíðinni."

Við erum föst í vítahring. Við höfum hannað og lagt vegi fyrir aukna bílaumferð frá sjötta áratugnum og erum enn að. Á sama tíma hefur íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgað úr 50.000 í 220.000. Gríðarleg húsnæðisbygging hefur átt sér stað og ennþá meiri vegauppbygging.

Við höfum val um hvar og hvernig húsnæði er byggt. Á sama tíma höfum við val um hvernig innviði við byggjum upp og fyrir hvaða faramáta. Nánast hver einasta króna hefur farið í innviðauppbyggingu fyrir einkabílinn. Ef hins vegar sömu upphæðir hefðu verið settar í innviði fyrir gangandi, hjólandi og almenningssamgöngur síðustu áratugi byggjum við í allt öðruvísi borg. Það væri mun minna af mislægum gatnamótum og mun meira af öflugum hjólaakreinum. Það væru mjórri götur og breiðari gangstéttir. Minni mengun og meira val.

Allar þær borgir sem standa hvað fremst í lífsgæða- og loftslagsmálum vita að einkabíllinn er ekki framtíðin. Þó svo að sjálfkeyrandi farartæki verði hluti af heildarmyndinni vill engin borg fá sjálfkeyrandi einkabíla í miklu magni. Til þess er ekki nóg pláss. Þess vegna eiga allar framsæknar borgir það sameiginlegt að stefna að því að flytja meiri fjölda fólks með öflugum almenningssamgöngum og stórtækum hjólainnviðum, þar er mesta flutningsgetan.

Í dag vitum við að borgarlína verður byggð. Kerfi sem mun umbylta húsnæðisuppbyggingu í borginni og hugsunarhætti þeirra sem um hana ferðast. Það er nefnilega fátt sem hefur jafnmikil áhrif á hugsun og hegðun fólks og það að sjá hlutina með eigin augum. Ríki og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eru líka sammála um að setja meira fjármagn í innviði fyrir hjólandi fólk og loksins eru komin árleg fjárframlög frá ríkinu í uppbyggingu hjólastíga.

Reykjavíkurborg hefur boðað metnaðarfyllri markmið um breyttar ferðavenjur en áður hafa sést á Íslandi, betri innviði fyrir strætó og byltingu í rafhjólum. Örflæði verður miklu stærri hluti af samgöngukerfinu í Reykjavík og mun hlutdeild allra annarra fararmáta en einkabílsins aukast næstu áratugina.

Færri bílaakreinar og færri bílastæði færa okkur svo miklu meira en hreinna loft. Þau færa okkur aukið pláss fyrir borgarlínu og fyrir húsnæðisuppbyggingu. Sem færir okkur minni umferðartafir og lægri samgöngukostnað. Sem færir okkur aukinn frítíma og aukin lífsgæði. Fjárfesting sem skapar ekki vítahring heldur sjálfbæran hring.

Áratugir þar sem mönnum líkt og Davíð Oddssyni og Robert Moses fannst sjálfsagt að fórna öllu fyrir hraðbrautir eru í dag hluti af fortíðinni. Þetta eru áratugir þar sem frekir karlar og ómanneskjuleg verkfræði sköpuðu í sameiningu það bílaumhverfi sem einkennir margar vestrænar borgir. Öllu skyldi fórna fyrir einkabílinn, hvort sem um var að ræða fátækrahverfi í New York eða Fossvogsdalinn í Reykjavík.

Í dag er Davíð Oddsson kominn upp í Hádegismóa og Robert Moses undir græna torfu. Í dag er Reykjavík að byggja húsnæði fyrir heimilislaust fólk, að vernda græn svæði og fækka einkabílum. Minnka umferðarhraða og forgangsraða gangandi fyrst. Skapa hægan púls með minni mengun og meira af gróðri þar sem þú nýtur tilverunnar, hvort sem þú ert á leiðinni til vinnu eða að hitta vinkonu.

Borgir munu hætta að vera mekka einkabílsins. Í framtíðinni verða þær lifandi orkustöðvar sjálfbærni og lífsgæða. Með manneskjulegt umhverfi í fararbroddi þar sem velferð íbúa og náttúrunnar haldast í hendur. Þangað stefnir Reykjavík.

Höfundur er formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur.

Höf.: Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur