Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Eftir Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson: "Ekki kæmi á óvart að Borgarlínuverkefnið yrði verulega kostnaðarsamara en nú er gert ráð fyrir."

Í sáttmála um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, sem undirritaður var 26. september 2019, fyrir um 10 mánuðum, var m.a. fjallað um þrjár framkvæmdir: Borgarlínu, lagningu Sundabrautar og mislæg gatnamót á Bústaðavegi/Reykjanesbraut.

Heildarfjármögnun þeirra samgönguframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu sem fjallað er um í samgöngusáttmálanum er 120 milljarðar króna. Þar af er gert ráð fyrir að „sérstök fjármögnun“ verði um 60 milljarðar króna. Fjármögnun á að tryggja m.a. með aukinni gjaldtöku af ökutækjum og sölu á eignum ríkisins.

Borgarfulltrúar meirihlutans, þ.m.t. borgarstjóri, hafa nánast ekkert minnst á lagningu Sundabrautar og gerð mislægra gatnamóta á Bústaðavegi/Reykjanesbraut. Það eru greinilega framkvæmdir sem meirihlutanum hugnast ekki, en samgönguráðherra hefur tekist að koma inn í samgöngusáttmálann með því að veita samþykki sitt fyrir Borgarlínu.

„Útfærsla“ í stað „mislæg“

Í samgöngusáttmálanum er fjallað um „Gatnamót við Bústaðaveg – 1100 milljónir árið 2021“. Augljóslega hefur ekki mátt nefna mislæg gatnamót, sem þó er gert ráð fyrir að þar verði byggð. Þann 21. mars árið 2017 lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu í borgarstjórn um gerð mislægra gatnamóta á Bústaðavegi og Reykjanesbraut. Borgarfulltrúar meirihlutans óskuðu eftir því að í stað orðanna „gerð mislægra“ í tillögunni kæmi orðið „útfærsla“. Þannig var tillagan samþykkt með teikningu, sem sýndi þrátt fyrir allt mislæg gatnamót. Ótrúlegur feluleikur af hálfu borgarfulltrúa meirihlutans.

Takmarkaður áhugi á lagningu Sundabrautar

Varðandi lagningu Sundabrautar er löngu ljóst að meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur hefur lítinn sem engan áhuga á því að sú framkvæmd verði að veruleika. Það verður fróðlegt að fylgjast með því á næstu tveimur árum hver þróun þessara mála verður.

Ekki kæmi á óvart að Borgarlínuverkefnið yrði verulega kostnaðarsamara en nú er gert ráð fyrir. Það mun líklega draga mjög úr fjárveitingum síðar meir til margra nauðsynlegra samgönguframkvæmda í Reykjavík, annarra en þeirra sem samgöngusáttmálinn gerir ráð fyrir í dag.

Ekkert hefur verið hlustað á alvarlega gagnrýni margra umferðarverkfræðinga og skipulagsfræðinga á tillögu um Borgarlínu, þrátt fyrir mikla reynslu þeirra af umferðarskipulagi. Þeir sem hannað hafa Borgarlínukerfið telja sig vita betur. En þeir bera ekki ábyrgð ef illa fer. Það gera þeir stjórnmálamenn sem þessa ákvörðun tóku, fyrst og fremst meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur.

Höfundur er fv. borgarstjóri.

Höf.: Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson