Herjólfur Ef samningar nást ekki verður önnur vinnustöðvun 28. júlí.
Herjólfur Ef samningar nást ekki verður önnur vinnustöðvun 28. júlí. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Tímabundin vinnustöðvun skipverja á Herjólfi mun hefjast á miðnætti í kvöld, en að sögn beggja aðila deilunnar eru engar aðgerðir fyrirhugaðar til að stöðva verkfallið.

Tímabundin vinnustöðvun skipverja á Herjólfi mun hefjast á miðnætti í kvöld, en að sögn beggja aðila deilunnar eru engar aðgerðir fyrirhugaðar til að stöðva verkfallið.

Jónas Garðarsson, formaður samninganefndar Sjómannafélags Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið að félagið hafi boðið Herjólfi ohf. málamiðlun til að fresta verkfallinu en að henni hafi verið hafnað. Málamiðlunin fólst í því að Herjólfur myndi bæta einni þernu við áhöfn skipsins til að létta undir með áhöfninni. Ef Herjólfur hefði fallist á það hefði verkfallinu verið frestað.

Jónas segist hissa á að Herjólfur ohf. hafi ekki fallist á málamiðlunina.

„Frestun ein og sér er ekki að gera neitt fyrir okkur,“ segir Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf., í samtali við Morgunblaðið.

„Afstaða okkar er skýr. Það er ekkert fyrirtæki á Íslandi í dag sem getur farið í 25-30% launahækkun ofan á lífskjarasamninga sem hefur verið samið um á almennum vinnumarkaði.“ Þá segir hann að önnur viðbrögð þurfi að koma frá Sjómannafélagi Íslands við því sem Herjólfur ohf. hefur lagt fram ef funda eigi á ný. petur@mbl.is