Heimaey Samgöngur eru í uppnámi og fátt vitað um framhaldið.
Heimaey Samgöngur eru í uppnámi og fátt vitað um framhaldið. — Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
Vinnustöðvun starfsmanna Herjólfs ohf. sem eru félagsmenn Sjómannafélags Íslands hófst öðru sinni á miðnætti aðfaranótt gærdagsins og mun standa yfir þar til á morgun. Deilan er á borði ríkissáttasemjara en engir fundir hafa verið boðaðir.

Vinnustöðvun starfsmanna Herjólfs ohf. sem eru félagsmenn Sjómannafélags Íslands hófst öðru sinni á miðnætti aðfaranótt gærdagsins og mun standa yfir þar til á morgun. Deilan er á borði ríkissáttasemjara en engir fundir hafa verið boðaðir.

„Ég tek ekki efnislega afstöðu enda er deilan ekki á mínu borði. En þetta hefur gríðarlega mikil áhrif á samfélagið allt og við hörmum það að þessi vinnudeila hafi þau áhrif að þjóðvegurinn okkar sé lokaður,“ sagði Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, í samtali við mbl.is í gær.

„Ég vona það besta – að deiluaðilar klári þetta af því að staðan eins og hún er núna er ekki boðleg samfélaginu okkar,“ bætir Íris við.

Leita allra leiða

Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf., segir félagið leita allra leiða til þess að tryggja samgöngur milli Eyja og meginlandsins.

Spurður hvort til greina komi að hefja siglingar á einhvern hátt þrátt fyrir að á verkfallinu standi vill hann ekki útiloka það án þess þó að gangast við því. „Það er auðvitað lögmætt verkfall í gangi, en það breytir því ekki að það eru starfsmenn hjá félaginu sem sinna þessum störfum og eru ekki í verkfalli. Við höfum skyldur gagnvart þessu fólki og eins samfélaginu sem við búum í.“

Hann segir að ekki sé hægt að láta núverandi ástand viðgangast og því séu ýmsir hlutir til skoðunar. „Það yrði ekki látið viðgangast lengi ef Þjóðvegur 1 væri rofinn eða mikilvægar samgöngur innan höfuðborgarsvæðisins eða til annarra bæja.“ alexander@mbl.is