Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Nýyrðið ferðavilji kemur nú á mikilli siglingu inn í umræðuna, en það er við fyrstu sýn ekki að finna í helstu orðabókum á netinu. Þetta er fallegt orð, eins konar andheiti orða eins og flughræðsla eða ferðafælni.

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Nýyrðið ferðavilji kemur nú á mikilli siglingu inn í umræðuna, en það er við fyrstu sýn ekki að finna í helstu orðabókum á netinu. Þetta er fallegt orð, eins konar andheiti orða eins og flughræðsla eða ferðafælni.

Fyrr í sumar hugsaði ég mér gott til glóðarinnar og fylltist ferðavilja. Ég ætlaði að skjótast í tveggja daga vinnuferð til Brussel í lok júlí og sá það til marks um að landið væri að rísa á ný. Ég ætlaði meira að segja að sætta mig við ýmsar krókaleiðir til að komast á áfangastað og hlíta helstu sóttvarnareglum, bæði á leiðinni og á áfangastað. Hvað gerir maður ekki til að sleppa í stutta stund úr prísund! En þá kom reiðarslagið. Þegar ég kæmi aftur til landsins, eftir einnar nætur dvöl ytra og tímafrekt og mögulega frekar óskemmtilegt ferðalag á milli staða, yrði ég að fara í 14 daga sóttkví eða skimun á landamærum, en myndi sleppa með 4-5 daga sóttkví ef niðurstaða rannsóknar sýndi ekki merki um veiruna.

Þótt maður sé til í ýmislegt, þá slökkti þetta endanlega í ferðaviljanum. Ég áttaði mig á að ég væri fangi í eigin landi.

Í gær vaknaði veik von um að ferðalagið væri aftur mögulegt þegar Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir mætti í pontu á blaðamannafundi og sagði að Íslendingar á leið frá ákveðnum löndum þyrftu ekki að lúta þessum skilyrðum. Belgía var ekki þar á meðal, og því þarf Brussel að bíða enn um sinn.