Pökkun Allur lax fer í frauðplastskössum og þarf laxeldið því marga kassa. Myndin er frá pökkun á Bíldudal.
Pökkun Allur lax fer í frauðplastskössum og þarf laxeldið því marga kassa. Myndin er frá pökkun á Bíldudal. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Sveitarstjórn Djúpavogshrepps hefur samþykkt að úthluta lóð á athafnasvæði við Innri-Gleðivík á Djúpavogi fyrir byggingu frauðplastskassaverksmiðju.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps hefur samþykkt að úthluta lóð á athafnasvæði við Innri-Gleðivík á Djúpavogi fyrir byggingu frauðplastskassaverksmiðju. Kassarnir eru ætlaðir fyrir flutning á laxi en rekið er laxasláturhús fyrir Austurland á Djúpavogi. Stefnt er að því að hefja framleiðslu á kössum næsta vor.

„Það hafa verið áform hjá okkur lengi um að koma þessu í gang. Ýmis áföll sem dunið hafa yfir hafa frestað þeim,“ segir Elís Hlynur Grétarsson, einn af eigendum sjávarútvegsfyrirtækisins Ósness sem hyggst standa fyrir uppbyggingunni í samvinnu við norskt fyrirtæki sem rekur slíkar verksmiðjur um alla Evrópu. Kórónuveirufaraldurinn er eitt þeirra áfalla sem fyrirtækið varð fyrir.

Tvær verksmiðjur framleiða frauðkassa fyrir fiskeldi og annan fisk hér á landi en Elís segir að vandræði séu með flutninga yfir endilangt landið. Hver kassi er fyrirferðarmikill þótt hann sé aðeins um 600 grömm að þyngd og því er aðallega verið flytja loft frá Hafnarfirði til Djúpavogs þegar kassarnir eru fluttir austur.

Samvinna við Norðmenn

Ósnes stendur að rekstri Búlandstinds ásamt fleirum og þar er rekið laxasláturhús fyrir Fiskeldi Austfjarða og Laxa fiskeldi og unninn annar fiskur.

Æskilegt hefði verið að byggja kassaverksmiðjuna við hús Búlandstinds en ekki er pláss þar og þess vegna var sótt um fimm þúsund fermetra lóð fyrir verksmiðjuhús og athafnasvæði við Innri-Gleðivík. Sótt var um lóðina í nafni félagsins BWEI box Iceland. Þar eru jafnframt áform um byggingu laxasláturhúss og tók sveitarstjórn einnig vel í þau áform. Gengið verður í að gera deiliskipulag þannig að hægt verði að ganga frá lóð fyrir kassaverksmiðjuna.

Elís segir að gera megi ráð fyrir að uppbygging kassaverksmiðjunnar kosti upp undir milljarð króna. Aðkoma norska fyrirtækisins sé nauðsynleg. Þeir hafi þekkinguna og muni eignast helming hlutafjár.

Í upphafi er aðeins hugsað um að framleiða hefðbundna laxakassa sem taka 23 kíló. Elís vill ekki útiloka að síðar verði hafin framleiðsla á fiskikössum í öðrum stærðum. Reiknað er með að fjórir starfsmenn verði við framleiðsluna til að byrja með.