Börn bíða eftir matargjöf í Nýju Delí. Ofuráherslu á loftslagsmál og inngripunum sem því tengjast fylgir fórnarkostnaður sem ekki má hundsa.
Börn bíða eftir matargjöf í Nýju Delí. Ofuráherslu á loftslagsmál og inngripunum sem því tengjast fylgir fórnarkostnaður sem ekki má hundsa. — AFP
Ásgeir Ingvarsson skrifar frá Istanbúl ai@mbl.is Það væri óskandi að stjórnvöld myndu slá af mestu öfgunum í loftslagsmálum rétt á meðan hagkerfum þjóða heims tekst að ná sér aftur á strik.

Ég er ekki meiri töffari en svo að ég hugsa mig tvisvar um áður en ég tjái mig á opinberum vettvangi um loftslags- og umhverfismál, verandi efasemdamaður. Er leitun að málaflokki þar sem erfiðara er að synda á móti straumnum, enda búið að koma því rækilega til skila hjá almenningi að plánetunni sé bráð hætta búin nema gripið verði til róttækra aðgerða.

Fréttaflutningurinn er allur á einn veg og þær fáu raddir sem viðra efasemdir, biðja fólk að stilla sig, forgangsraða og mæla vandlega kostnað og ávinning komast varla að.

Það þurfti kórónuveirufaraldur til að fá langþráða hvíld frá daglegum æsifréttum fjölmiðla þar sem hvers kyns frávik í veðurfari eru tengd við útblástur frá farartækjum og verksmiðjum, og lækkandi eða hækkandi hitastig síðan tengt við allt frá fátækt og ójöfnuði yfir í kúgun jaðarsettra hópa. Svo gerðist auðvitað hið óumflýjanlega: Loftslagsbreytingum var kennt um kórónuveiruna líka.

Ég hafði vonað að faraldurinn yrði til þess að jarðtengja umræðuna: Að leiðtogar um allan heim myndu a.m.k. slá metnaðarfullum loftslagsverkefnum á frest en einblína þess í stað á leiðir til að gera hagkerfi ríkja þróttmeiri; að aðkallandi þörf strax í dag myndi réttlæta það að bíða ögn með íþyngjandi reglur og gjöld sem breyta ekki nokkru fyrir loftslagið fyrr en að hundrað árum liðnum. Bjartsýnn sem ég er vonaði ég að einmitt nú væri auðsótt að fá að fresta (eða segja upp einhliða) skuldbindingum á borð við Kyoto-sáttmálann, sem kostar ríkissjóð marga milljarða króna árlega, eða fella niður reglur um íblöndun lífeldsneytis í bensín og dísilolíu, sem íþyngir öllum þeim heimilum og fyrirtækjum sem reka bíl. Bara sjávarútvegurinn, einn og sér, má á þessu ári reikna með að borga um tvo milljarða króna í skatta sem tengjast losun koltvísýrings.

En sagan kennir okkur að þegar kreddur og rökhugsun mætast gerist það oftar en ekki að rökin lúta í lægra haldi. Munum að þegar Nikolai Vavilov geispaði golunni í sovéskum fangaklefa árið 1943 varð það honum örugglega til lítillar huggunar að hafa haft á réttu að standa.

Mikilvægi þess að þóknast valdhöfum

Nikolai Vavilov var stórmerkilegur jarðræktar-, grasa- og genafræðingur sem gerði tímamótauppgötvanir um uppruna nytjaplantna og þróaði betri afbrigði af hveiti-, maís- og kornplöntum. Hann fæddist inn í tiltölulega efnaða fjölskyldu, sonur kaupmanns í Moskvu, en ólst upp við sögur frá föður sínum sem hafði fengið að reyna það á eigin skinni hvers konar hörmungar það gat þýtt fyrir bláfátæka bændur Rússlands þegar uppskeran brast. Vavilov setti sér ungur það markmið að uppræta hungur bæði í Rússlandi og um allan heim og sökkti sér ofan í fræðin. Hann útskrifaðist frá Landbúnaðarfræðastofnuninni í Moskvu árið 1910, átta árum áður en bolsévikar myrtu Nikulás II og fjölskyldu hans. Vavilov plummaði sig ágætlega í sovéska stjórnkerfinu, varð á endanum yfirmaður sovésku landbúnaðarakademíunnar og hlaut m.a. Lenínsorðuna fyrir afrek sín á vísindasviðinu.

Svo gerðist það einn daginn að leiðir Vavilovs og Trofim Lysenko lágu saman. Sagan segir að Lysenko hafi ekki verið sérstaklega lunkinn grasafræðingur, en Vavilov hvatti þennan unga fræðimann samt til dáða.

Lysenko reyndist verða einhver mesti skaðvaldur vísindasögunnar. Hann sneri genafræðunum á haus og þótt ekki stæði steinn yfir steini í hugmyndum hans féllu kenningar hans í kramið hjá þeim sem mestu máli skipti: Stalín sjálfum. Nálgun Lysenko passaði líka betur við hugmyndafræði marxista, en hefðbundin genafræði Gregors Mendels og félaga þótti menguð af afturhaldsstefnu og borgaralegum gildum. Var því ráðleggingum Lysenko fylgt út í ystu æsar og leiddi það til uppskerubrests og hungursneyða sem kostuðu milljónir Sovétmanna lífið. Kommúnistarnir í Kína ösnuðust til að fylgja fordæmi Sovétríkjanna svo að fimmtán milljónir Kínverja létust úr hungri.

Lysenko gramdist mjög gagnrýni erlendra kollega sinna sem sökuðu hann um að skilja ekki einföldustu grunnatriði gena- og plöntuvísinda. Gagnrýni frá innlendum kollegum var minna vandamál. Þeir sem voru ekki á sömu línu og Lysenko voru um leið ekki á sömu línu og Stalín, og því einfaldlega sendir í fangabúðir eða leiddir fyrir aftökusveit. Vavilov var handtekinn 6. ágúst 1940 og dæmdur til dauða ári síðar. Árið 1942 var þó ákveðið að milda dóminn og láta vísindamanninn frekar dúsa í fangelsi í 20 ár. Vavilov tórði eitt ár í viðbót, veikur, horaður og banhungraður eins og fólkið sem hann ætlaði að hjálpa með rannsóknum sínum.

Heimsendi frestað

Seint í júní þurfti umhverfisverndarsinninn Michael Schellenberger að kveðja marga nánustu vini sína og samferðamenn. Ekki vegna þess að kórónuveiran hefði orðið honum að bana, heldur vegna þess að hann vogaði sér að efast um heimsendaáróður umhverfisverndarhreyfingarinnar undanfarna þrjá áratugi. Schellenberger birti grein hjá Forbes þar sem hann baðst afsökunar á því hvernig hann og kollegar hans hefðu villt um fyrir almenningi: Loftslagsbreytingar væru ekki eins skelfileg vá og haldið hefði verið fram, brýnni vandamál biðu úrlausnar og áherslur umhverfisverndarsinna í loftslagsmálum myndu verða að litlu gagni.

Schellenberger er ekkert smáseiði á sínu sviði og hefur þvert á móti verið lengi í framvarðasveit bandarísku umhverfishreyfingarinnar. Sem táningur hellti hann sér út í baráttuna fyrir verndun regnskóganna og á fertugsaldri var hann orðinn áhrifamikill í baráttunni fyrir verndun náttúru og loftslags víða um heim. Árið 2008 rataði hann á lista Time yfir heimsins öflugustu náttúruverndarsinna. Að hann skyldi taka aðra eins u-beygju í loftslagsmálum var álíka óvænt og ef páfinn léti reisa mínarettu á þaki Péturskirkjunnar.

Greinin féll í grýttan jarðveg, vægast sagt, og eins og virðist vera allt of algengt í dag fór Forbes ekki þá leið að hvetja til umræðu og skoðanaskipta. Schellenberger var einfaldlega ritskoðaður og Forbes lokaði fyrir aðgang að greininni þegar hún hafði verið í loftinu í einn sólarhring. Blessunarlega gaf Schellenberger líka út bók, Apocalypse Never , þar sem hann útskýrir betur skoðanir sínar og tillögur. Bókin stökk strax upp í 7. sæti metsölulista Amazon í flokki almennra rita.

Viðhorf Schellenbergers litast einkum af því að hann reynir að forðast kreddur en nálgast áskoranir í umhverfismálum með rök, vísindi og nytjahyggju að leiðarljósi. Hann kom t.d. snemma auga á að einhver allrabesta leiðin til að draga úr losun koltvísýrings væri að auka hlut kjarnorku í raforkuframleiðslu og alveg galið að tefla vind- eða sólarorku fram sem einhvers konar lausn enda dýr, óáreiðanleg, plássfrek og óumhverfisvæn leið til að framleiða rafmagn. Smám saman rann upp fyrir honum, á löngum ferli, að svo margt sem gert er í nafni umhverfisins byggir ekki á vísindum, skynsemi og vandaðri forgangsröðun heldur virðist eiga mest skylt við einhvers konar loftslags-trúarbrögð þar sem umbúðirnar skipta meira máli en innihaldið; þar sem dyggðaskreytingar skipta meiru en að gera sem mest gagn. Hann sá að sirkussýningunni er haldið gangandi af óvönduðum umhverfissamtökum, breyskum vísindamönnum og vanhæfum blaðamönnum sem njóta góðs af því að magna upp sem mesta geðshræringu.

Fórnarkostnaðurinn metinn

Læti og geðshræring út af loftslags- og umhverfismálum væru svo sem ekki mikið vandamál ef ekki væri fyrir það tjón sem það veldur þegar stjórnvöld ganga á lagið, búa til nýja skatta og setja fólki og fyrirtækjum alls kyns skorður. Það er líka alvarlegt hvað tiltölulega léttvægt vandamál eins og loftslagsbreytingar fær mikla athygli á meðan aðrar og brýnni áskoranir mannkyns sitja á hakanum. Verst af öllu er svo þegar aðgerðir sem líta vel út á yfirborðinu bitna á þeim sem verst standa og gera bæði matvæli og orku dýrari í löndum þar sem fólk líður skort.

Danski stjórnmálafræðingurinn dr. Björn Lomborg var líka að senda frá sér nýja bók þar sem hann fjallar um einmitt þetta. Titillinn lýsir efni bókarinnar ágætlega: False Alarm: How Climate Change Panic Costs Us Trillions, Hurts the Poor, and Fails to Fix the Planet . „Loftslagsbreytingar eru alvöru vandamál, en við höfum ýkt vandann svo mikið að það er hreinlega orðið kjánalegt,“ segir Lomborg, sem lengi hefur bent á skynsamlegri leiðir til að hafa hemil á loftslagsbreytingum. „En þegar við loksins áttum okkur á því að heimurinn er ekki að farast út af loftslagsbreytingum, þá getum við byrjað að beina athyglinni að öllu hinu sem við þurfum að koma í lag.“

Hvað gæti verið brýnna? Ef Vavilov væri spurður myndi hann t.d. benda á að núna lifa meira en 800 milljón manns við hungurmörk og dag hvern dregur næringarskortur um 25.000 manns til dauða, þar af um 10.000 börn.