Hið stóra samhengi sögunnar, umhverfismál, traust fólks á meðal og samskipti á viðsjárverðum tímum kórónuveirunnar bar á góma í ræðum á Skáholtshátíð sem haldin var í gær. Kristján Björnsson vígslubiskup og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fluttu hátíðarræður dagsins, en fjölmenni var í Skálholti í gær. Hátíðarmessa hófst á því að prósessía kórs og hempuklædds kennifólks gekk frá skólahúsi í kirkju. Fremstar í flokki voru þær María Rut Baldursdóttir, prestur á Hornafirði, sem hér sést til vinstri, og Aldís Rut Gísladóttir, prestur við Langholtskirkju í Reykjavík.
Hinar stóru áskoranir samtímans eru loftslagváin og tæknibylting þar sem við færumst á ógnahraða inn í nýjan heim og vélar taka ákvarðanir fyrir okkur, stundum án þess að við vitum það sjálf, sagði Katrín Jakobsdóttir í ávarpi sínu. Vék hún einnig að vísindum og trausti á tímum COVID-19 og sagði að jöfnuður og traust ætti að ríkja á meðal fólks og þar yrðu stjórnmálamenn að leggja sitt af mörkum. sbs@mbl.is