Bjarni Gíslason var fæddur á Patreksfirði 6. júní 1937. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eiri í Reykjavík þann 17. júlí 2020.
Foreldrar Bjarna voru Gísli Bjarnason, f. 24. nóvember 1900, d. 8. ágúst 1974, og Nanna Guðmundsdóttir, f. 2. september 1913, d. 20. desember 1996. Systkini Bjarna eru: 1) Anna, f. 15.mars 1936. 2) Guðrún, f. 29.mars 1943. Uppeldissystir Bjarna og dóttir Önnu er Nanna Sjöfn Pétursdóttir, f. 18. júlí 1955.
Þann 5. nóvember 1960 giftist Bjarni Þóreyju Jarþrúði Jónsdóttur, f. 14. júní 1940, en hún lést 30. mars 2013. Börn Þóreyjar og Bjarna eru: 1) Hólmfríður, f. 25. júní 1960, maki Norbert Birnböck. Synir Hólmfríðar og Hilmars Arnar Agnarssonar eru Georg Kári, f. 8. janúar 1982, Andri Freyr, f. 14. júlí 1987, og Gabríel Daði, f. 30. júní 1997. 2) Gísli, f. 20. júlí 1963, maki Margrét L. Laxdal, synir þeirra eru Bjarni Þór, f. 6. september 1994, Pétur Geir, f. 27. júlí 1998, og Oddur Freyr, f. 6. desember 2005. Sonur Gísla og Ólafíu Andrésdóttur er Árni Theodór, f. 25. nóvember 1985. 3) Heimir, f. 17. desember 1970, maki Sædís Guðmundsdóttir, synir þeirra eru Aron, f. 2. september 2001, og Axel, f. 9. nóvember 2006.
Bjarni Gíslason, eða Bobbý eins og hann var kallaður af fjölskyldu sinni fyrir vestan, var fæddur í Urðargötu 6 á Patreksfirði og ólst hann þar upp ásamt tveimur systrum sínum og einni uppeldissystur. Bjarni stundaði nám við Iðnskólann á Patreksfirði og fór þaðan til Akureyrar þar sem hann lauk iðnaðarprófi í rafvirkjun og fór í framhaldinu á samning þar. Á Akureyri kynnist hann eiginkonu sinni, Þóreyju Jarþrúði Jónsdóttur, og giftu þau sig þann 5. nóvember 1960. Þau fluttu til Reykjavíkur þar sem hjónin stofnuðu sitt fyrsta heimili og eignuðust þau þrjú börn. Bjarni starfaði alla tíð sem rafvirki og lengst af á sínum starfsferli hjá Kassagerð Reykjavíkur. Bjarni var mikið fyrir útivist og hafði mikinn áhuga á stangveiði á sínum yngri árum en seinna, eftir að hann kynntist golfinu, átti það hug hans allan. Hann var félagi í Golfklúbbi Reykjavíkur og var m.a. í öldungalandsliði Íslands í golfi um tíma. Hann var alla tíð virkur félagi í Kíwanisklúbbnum Eldey í Kópavogi og sat þar sem formaður klúbbsins á árunum 1986-1987.
Útförin fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 29. júlí 2020, klukkan 13.
Við fráfall stóra bróður míns Bjarna leita margar kærar minningar á hugann frá langri samleið, ekki síst frá æskuárum á Patró. Ég sex árum yngri, hann unglingur vann í frystihúsinu og líka í vegavinnu á sumrin. Hann farinn að stunda bíó og böll og vildi vera fínn, ég lukkuleg að fá túkall fyrir að bursta skóna hans og jafnvel að pressa buxurnar líka. Snemma fór hann að heiman, fyrst á Héraðsskólann á Núpi og fljótlega til Akureyrar að læra rafvirkjun þaðan sem hann kom aðeins heim í fríum. Alltaf leit ég upp til hans, svo flinkur á skautum og á tunnustöfum, Hólstúnið sem umkringdi heimili okkar hentaði sérlega vel fyrir þá íþrótt, sem fáir þekkja í dag, trúi ég. Og ekki má gleyma „tjútti“, dansinum sem hann kenndi mér og Dísu vinkonu á stofugólfinu í Urðargötu 6.
Á Akureyri kynntist hann lífsförunaut sínum, henni Þrúðu, sem kvaddi 2013. Hennar hefur hann saknað sárt og trúði á endurfundi. Þau fluttu til Reykjavíkur frá Akureyri um svipað leyti og ég með foreldrum okkar frá Patreksfirði. Þá höfðu þau eignast Hólmfríði, sem fæddist á Patreksfirði, svo kom Gísli og eftir sjö ára hlé kom Heimir, rúmum níu mánuðum eftir að þau tóku Óttar u.þ.b. mánaðar gamlan til sín, þegar ég hafði hryggbrotnað í lok einnar bunu á snjóþotu í Hólsfjölskyldu skíða–/sleðaferð. Hann lét mig strax vita að ég yrði rukkuð um meðlag. Heimir og fjölskylda hafa reynst bróður mínum sú stoð og stytta sem hann þurfti á að halda síðustu misserin þar sem eldri börnin eru búsett fjarri, Gísli og fjölskylda á Dalvík og Hófý í Þýskalandi. Auðvitað naut hann Gísla meðan hann enn heimsótti Norðurland og hefur margsinnis notið þess að ferðast með Hófý vítt og breitt um Þýskaland og Suður–Evrópu.
Hann reyndist okkur Andreasi hjálparhella þegar kom að rafmagnsvinnu og lagði t.d. allt rafmagn í húsið okkar á Álftanesinu og tengdi ljós og tæki þegar á þurfti að halda. Veit ég að margir vinir og stórfjölskyldan nutu greiðvikni hans með slíkt og var það alltaf gert utan langs vinnutíma í Kassagerðinni þar sem hann var í áraraðir fastráðinn rafvirkjameistari.
Í kringum 40 ára aldurinn byrjaði hann að spila golf og má segja að sú íþrótt hafi tekið hug hans allan. Fljótt varð hann meðal þeirra bestu í sínum aldursflokki og Íslandsmeistari oftar en einu sinni. En þetta þýddi líka að minna varð um samskipti, við í hestamennsku og hann í golfi, það fór ekki saman, en auðvitað hittumst við á hátíðis- og tyllidögum og þá var alltaf gaman.
Síðustu árin fengum við Andreas hann stundum í mat til okkar og nutum við þess að spjalla og spyrja. Síðast um miðjan febrúar. Svo kom Covid. Næst áttum við systur yndislega samveru á heimili hans afmælidaginn 6. júní og aftur 14. júní í Fríkirkjunni við fermingu yngsta barnabarns hans en þá var okkur brugðið. Stuttu síðar fékk hann vist á Eir í notalegu herbergi með útsýni yfir sundin blá, sem við „sjávarþorpskrakkar“ elskum. En dvölin þar varð ekki löng. Mér finnst þetta hafa gerst ótrúlega hratt og sakna stóra bróður, en ég tel að hann hafi farið sáttur og trúað á endurfundi við Þrúðu sína.
Guðrún Gísladóttir Bergmann.
Þannig ber að þreyja.
Þessu stefnt er að.
elska, iðja, deyja.
allt er fullkomnað.
(Steingrímur Thorsteinsson)
Bjarni Gíslason Kiwanisfélagi í Eldey er látinn. Bjarni gekk í klúbbinn hinn 4. apríl 1977, hann var virkur félagi og hafði sterkar skoðanir á því hvernig starfið í klúbbnum ætti að vera. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að njóta leiðsagnar hans þegar ég var valinn forseti klúbbsins 2018. Hann benti mér á hvernig hlutirnir gætu farið betur, en aldrei sagði hann mér að ég ætti að gera svona eða svona. Við félagarnir í klúbbnum eigum eftir að sakna Bjarna. Við minnumst hans með virðingu og hlýju. Við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldu Bjarna og biðjum Guð að styrkja ykkur.
Páll Svavarsson, forseti
Kiwanisklúbbsins Eldeyjar.