Skúli Guðmundsson fæddist í Reykjavík 26. apríl 1941. Hann lést á Landspítalanum 17. júlí 2020. Foreldrar hans voru Guðmundur Gíslason, f. 23. júlí 1903, d. 24. júní 1993, og Hólmfríður Magnúsdóttir, f. 9. september 1899, d. 24. júní 1991. Systkini Skúla: Magnús, f. 15. júní 1925, d. 7. apríl 2010; Gísli, f. 11. september 1926, d. 4. júlí 2008; Axel Þórður, f. 26. september 1929, d. 23. apríl 1994; Ingibjörg Ólafía, f. 11. ágúst 1931, d. 11. desember 2009; Ástþór, f. 26. október 1934, d. 22. september 2005; Fjóla, f. 27. september 1936; Þóra Sigrún, f. 20. febrúar 1939, Guðmundur, f. 28. nóvember 1942, d. 16. október 1986; Jens Guðjón, f. 4. desember 1946.

Eftirlifandi maki Skúla er Björg Guðnadóttir en þau giftust í Reykjavík árið 1964. Börn þeirra eru: 1) Sigrún, f. 13. apríl 1958, d. 21. september 2000. 2) Álfheiður, f. 5. júní 1960. 3) Guðni Þór, f. 13. janúar 1965. 4) Ragnheiður Linda, f. 23. janúar 1970.

Skúli bjó í Reykjavík og síðar í Mosfellsbæ. Hann byrjaði ungur að vinna og vann margs konar störf til lands og sjós.

Útförin fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 29. júlí 2020, klukkan 13.

Elsku hjartans pabbi minn. Þá er komið að kveðjustund í bili. Þegar ég lít til baka er einfalt að sjá að það var mín gæfa í lífinu að eiga þig sem pabba. Og mömmu og þið hvort annað. Þú gafst mér allt sem hægt er að óska sér; skilyrðislausa ást, umhyggju, tíma og kannski það mikilvægasta: fyrirmynd að sannri og góðri manneskju. Þú varst heilsteyptur og fordómalaus. Þú tókst öllum á þeirra forsendum og það með gleði og góðmennsku. Það er ekki annað hægt en að brosa um leið og ég skrifa þessar línur því þú varst svo glaðvær og spaugsamur, brandararnir þínir voru margir og oft endurteknir! Lífið gerðist og margs er að minnast. Hvað þú varst góður við mig, við dóttur mína og hreinlega alla og vildir allt fyrir alla gera. Það eina sem gekk ekki eftir var að byggja þennan kofa sem þú lofaðir mér þegar ég var lítil stelpa. Við vorum einmitt að grínast með það um daginn hvenær þú ætlaðir að fara að drífa í kofanum! En nóg annað byggðir þú nú víst samt. Undir lokin voru veikindi þín mikil og erfið og það léttir í sorginni að vita að þú þjáist ekki meira. Rétt fyrir andlát þitt dreymdi mig svo fallegan draum um þig. Þú varst við tæra og breiða á og þar var stór og fallegur fiskur. Bláfiskur hét hann víst. Ég horfði á þig fara inn með ánni léttan í spori til þess að ná í fiskinn. Enda vissir þú fátt betra en að veiða og þetta var falleg kveðjustund. Ég geymi allar minningarnar um þig í hjarta mínu og þakka þér fyrir allt. Ég hugsa vel um mömmu fyrir þig eins og við töluðum um. Litla telpan þín,

Ragnheiður Linda Skúladóttir.