Berjadagar „Ólafsfjörður er tónleikaperla því bæði Ólafsfjarðarkirkja og menningarhúsið Tjarnarborg eru fyrsta flokks,“ segir Ólöf Sigursveinsdóttir, fiðluleikari, listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri Berjadaga á Ólafsfirði.
Berjadagar „Ólafsfjörður er tónleikaperla því bæði Ólafsfjarðarkirkja og menningarhúsið Tjarnarborg eru fyrsta flokks,“ segir Ólöf Sigursveinsdóttir, fiðluleikari, listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri Berjadaga á Ólafsfirði. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Magnús Guðmundsson magnusg@mbl.

Viðtal

Magnús Guðmundsson

magnusg@mbl.is

„Þetta er í tuttugasta og annað sinn sem Berjadagar eru haldnir hátíðlegir á Ólafsfirði og auk þess er bærinn 75 ára, þannig að það er ærið tilefni til að gleðjast fyrir alla aldurshópa,“ segir Ólöf Sigursveinsdóttir, framkvæmdastjóri og listrænn stjórnandi hátíðarinnar. Frítt er á tónleika á hátíðinni fyrir 18 ára og yngri.

Eftir að farið var að halda Berjadaga um verslunarmannahelgi hefur hátíðin fest sig rækilega í sessi sem frábær valkostur fyrir tónlistarunnendur. „Það er frábært fyrir þá fjölmörgu sem eru á ferðinni þessa daga að eiga þess kost að staldra við á hágæðatónleikum til þess að hlusta á svona frábæra listamenn.“

Hljómhúsin til fyrirmyndar

Ólöf segir að það aðsókn á hátíðina hafi aukist á síðustu árum og að í fyrra hafi verið sett aðsóknarmet. „Þá vorum við með óperusýningu í menningarhúsinu Tjarnarborg og þar var margt um manninn og mikil gleði. Við höldum áfram uppi merkjum óperu á þessari hátíð og munum leitast við að gera í framtíðinni.

Að þessu sinni erum við í fyrsta sinn með hádegistónleika í Ólafsfjarðarkirkju, þar sem þau Chrissie Telma Guðmundsdóttir fiðluleikari og Einar Bjartur Egilsson píanóleikari ætla að ferðast um ólík tímabil tónlistarsögunnar. Þetta er skemmtilegur valkostur, bæði fyrir gesti hátíðarinnar og alla sem eru á ferðinni um þessa helgi.“

Spurð hvort góð aðstaða sé á Ólafsfirði til flutnings á sígildri tónlist segir Ólöf að heimamenn geti verið stoltir af hljómhúsum sínum. „Ólafsfjörður er tónleikaperla því bæði Ólafsfjarðarkirkja og menningarhúsið Tjarnarborg eru fyrsta flokks. Það bregst heldur ekki að eftir tónleika er fólk í viðjum tónlistarinnar vegna þess að hljómurinn – við þekkjum þetta frá Reykholti og víðar þar sem hefur verið lagt í hljóminn – er sannarlega til staðar.

Þessi hljómur er mér alltaf mikill innblástur og ég leitast því við að byggja hljómleikana út frá honum.“

Alltaf veisla

Ólöf hefur á orði að það sé gefandi fyrir starfandi listamenn að taka þátt í hátíð á borð við Berjadaga. „Að vera atvinnumaður í tónlist felur í sér svo margt fleira en að vera inni í herbergi að æfa sig. Það getur verið að borða saman, að skála eftir tónleika og samveran á undan og eftir tónleikum gefur okkur færi á því að fá innblástur hvert frá öðru. Að taka þátt í svona hátíð er því listrænt átak og falleg reynsla í leiðinni.

Það er mér því sérstök ánægja að safna saman hæfileikafólki á svona stað eins og Ólafsfjörð.

Við eigum svo margt frábært tónlistarfólk sem er alveg á pari við það besta sem gerist og þarna gefst einstakt tækifæri til þess að koma og hlusta á þetta fólk spila.

Listamennirnir koma og flytja það sem stendur hjarta þeirra næst í bland við það sem ég bið þá um að flytja og tónleikar á Berjadögum verða oft á tíðum veisla þar sem stemningin getur verið jafnvel magnþrungin.“

Frábær píanisti

Ólöf segir að þetta valfrelsi í tónlist sem listamennirnir hafa sé lykill að fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá.

„Á hátíðinni er að finna íslensk söngljóð, kammertónlist, Jón Ásgeirsson verður þar með heiðna aríu úr Þrymskviðu í kirkjunni og það er smá óþekkt í því sem við höfum gaman af.

Það er yndislegt að hugsa til þess að Elja kammersveit kemur, stór í sniðum, undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar og það verður sögulegt því ég veit ekki til þess að sinfónían hafi komið nema einu sinni til Ólafsfjarðar og það var einhvern tímann í fornöld,“ bætir Ólöf við glettin. „Það er líka sérstaklega spennandi við þessa tónleika að með Elju verður Jónas Ásgeir Ásgeirsson, einleikari á harmonikku, og það ætti enginn að missa af því.“

Upphafskvöld hátíðarinnar verður með óvenjulegu sniði sem markast af 250 ára afmæli Ludwigs van Beethovens.

„Jón Thoroddsen heimspekingur ætlar að leggja leið sína norður og ræða við okkur af því tilefni og sjálf tek ég tónskáldið aðeins að mér með því að spila með okkar stórkostlega píanista Þorsteini Gauta Sigurðssyni. Það er alveg sérstakt að spila með Þorsteini því hann er hreint út sagt frábær píanisti.“

Afmælisveisla

Tónlistardagskráin á Berjadögum er fjölbreytt og ekki einvörðungu á klassískum nótum því á meðal þeirra sem ætla að skemmta fólkinu er hin valinkunna sveit Hundur í óskilum.

Að auki verður margt um að vera í bænum, sem fagnar á sunnudaginn 75 ára kaupstaðarafmæli.

„Það verður afmæliskaffi og grill á laugardeginum og opnun myndlistarsýningar í Pálshúsi en það er verið að ljúka endurnýjun á því fallega húsi sem verður opnað með pompi og prakt á laugardeginum. Að auki verður söguganga um bæinn, sveppaskoðun, jurtaskoðun og fjölmargt fleira spennandi enda eru heilir fjórtán dalir í Ólafsfirði. María Bjarney Leifsdóttir Ólafsfirðingur ætlar að vera með göngu inn í Árdalinn á sunnudagsmorguninn og því verður af nógu að taka.

Það er því ekki hægt að horfa framhjá því að yfirskrift Berjadaga, Listsköpun og náttúra, á sérstaklega vel við að þessu sinni.“

Ólöf leggur áherslu á að hátíðin myndi aldrei standa undir kostnaði nema með góðhug Ólafsfirðinga, sem veita hátíðinni húsnæði og mikla aðstoð ár eftir ár. Hún bendir einnig á að hægt er að kaupa hátíðarpassa á tix.is og þar er líka hægt að velja sér staka viðburði. Berjadagar henta því vel fyrir bæði þá sem hafa hug á að dvelja á Ólafsfirði yfir helgina sem og fólk sem er á ferðinni og kemur við á leið sinni um landið.