Kelduskóli/Korpu Kennslu hefur verið hætt í skólanum og húsgögn fjarlægð. Húsnæðið verður auglýst til leigu.
Kelduskóli/Korpu Kennslu hefur verið hætt í skólanum og húsgögn fjarlægð. Húsnæðið verður auglýst til leigu. — Morgunblaðið/sisi
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Borgarráð hefur samþykkt að heimila fjármála- og áhættustýringarsviði Reykjavíkurborgar að auglýsa fasteignina Bakkastaði 2, Kelduskóla/Korpu, til leigu. Það er ekki á hverjum degi sem heill skóli, 2.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Borgarráð hefur samþykkt að heimila fjármála- og áhættustýringarsviði Reykjavíkurborgar að auglýsa fasteignina Bakkastaði 2, Kelduskóla/Korpu, til leigu. Það er ekki á hverjum degi sem heill skóli, 2.816 fermetrar, er auglýstur til leigu.

Meirihlutinn í skóla- og frístundaráði borgarinnar samþykkti í fyrrahaust að leggja niður skólahald í Kelduskóla/Korpu og færa bekkjardeildir þar í aðra skóla hverfisins. Foreldrar barna í Staðahverfi mótmæltu þessari ákvörðun harðlega. Skólinn er nýlegur, tók til starfa í ársbyrjun 2012.

Fram kemur í greinargerð eignarskrifstofu að skóla- og frístundasvið hafi sagt upp leigu húsnæðis að Bakkastöðum 2 frá og með 1. júlí sl. Húsnæðið, sem er á einni hæð, geti hentað undir ýmsa starfsemi en sé hannað sem skólahúsnæði. Nokkrir aðilar hafi sýnt áhuga á að fá húsnæðið á leigu eftir að skóla- og frístundaráð ákvað að sameina starfsemi grunnskóla í Grafarvogi og hætta notkun á húsnæðinu. Leigutími yrði ótímabundinn með 12 mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Marta Guðjónsdóttir, Hildur Björnsdóttir og Egill Þór Jónsson, bókuðu að þeir samþykktu að skólinn yrði leigður út með því skilyrði þar yrði skólahald til að mynda fyrir sjálfstætt rekna skóla sem hefðu áhuga á að leigja húsið fyrir starfsemi sína.

Fari frítt í sjálfstæðan skóla

Borgarráðsfulltrúarnir lögðu á sama fundi fram tillögu þess efnis að yrði það raunin að sjálfstætt rekinn grunnskóli yrði með starfsemi sína í húsnæðinu legðu þeir til að börn í Staðahverfi ættu þess kost að ganga í skólann sér að kostnaðarlausu. Það væri sanngirnismál að Reykjavíkurborg greiddi kostnað vegna þessara nemenda kysu þeir að ganga í sjálfstætt rekinn skóla í hverfinu. Búast mætti við að margir foreldrar hefðu áhuga á að börn þeirra gætu sótt skóla í nærumhverfi sínu, sem sé í anda eins meginstefja aðalskipulagsins.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, Kolbrún Baldursdóttir, bókaði að með þessari aðgerð væri endanlega verið að loka fyrir þann möguleika að snúa ákvörðun um skólamálin í norðanverðum Grafarvogi til baka, þ.e. að hafa starfsstöð Kelduskóla/ Korpu eins og var. „Sameining starfsemi grunnskóla í Grafarvogi þar sem hætt var notkun á húsnæðinu olli reiði og ólgu meðal margra foreldra og íbúa í Grafarvogi. Ekki er komin reynsla á hvernig hið nýja fyrirkomulag muni koma út ef horft er til hagsmuna barnanna. Enda þótt ekki sé góður kostur að hafa Bakkastaði 2 ónotað húsnæði er spurning hvort ekki ætti að hinkra ögn og sjá hvernig mál þróast í hinu nýja fyrirkomulagi,“ bókaði Kolbrún.