Áfall Bílaleigumarkaðurinn hefur orðið fyrir gríðarlegu höggi í ár.
Áfall Bílaleigumarkaðurinn hefur orðið fyrir gríðarlegu höggi í ár. — Morgunblaðið/Baldur
Bílaleigan Green Motion hefur verið tekin til gjaldþrotaskipta. Þetta staðfestir Rúnar Laufar Ólafsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Bílaleigan Green Motion hefur verið tekin til gjaldþrotaskipta. Þetta staðfestir Rúnar Laufar Ólafsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Segir hann að ljóst hafi orðið fyrir um tveimur mánuðum að ekki yrði lengra gengið í tilraunum til að bjarga fyrirtækinu. Þegar mest lét var fyrirtækið með um 850 bíla á sínum snærum en síðustu misseri hafði flotinn verið skorinn talsvert niður.

Önnur á leið í þrot

Heimildir Morgunblaðsins herma að bílaleigan Lagoon Car Rental, sem hefur verið með um 400 bíla í flota sínum, muni einnig verða tekin til gjaldþrotaskipta á allra næstu dögum. Hefur fyrirtækið nú þegar tilkynnt viðskiptavinum sínum, sem pantað höfðu bíla hjá því til notkunar á komandi vikum, um að ekki verði hægt að uppfylla þjónustuna með umsömdum hætti. Þá hefur fyrirtækið einnig gefið út að það sé ekki í aðstöðu til þess að endurgreiða viðskiptavinum sem enn áttu eftir að taka bíla á leigu þar sem fjármunir fyrirtækisins hafi verið frystir. Morgunblaðið hefur rætt við marga forsvarsmenn íslenskra bílaleiga á síðustu dögum og er það mat flestra að markaðurinn sé afar þungur og óvissan mikil, ekki síst vegna nýrra smita í landinu. Flestar leigur leita áfram leiða til þess að laga flotamál sín að breyttum veruleika og er það yfirleitt gert í samráði við fjármögnunarfyrirtæki og bílaumboðin sem mörg hver höfðu gert stórar pantanir á nýjum bílum fyrir sumarið sem lítið sem ekkert varð úr.

ses@mbl.is