[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jónína Sigrún Lárusdóttir er fædd 7. ágúst 1970 á Akureyri og ólst þar upp fyrstu árin. „Við fluttum suður 1979, pabbi var á þingi og við áttum þá tvö heimili en fluttum alveg suður 1984. Í millitíðinni fluttum við sex sinnum á sex árum.

Jónína Sigrún Lárusdóttir er fædd 7. ágúst 1970 á Akureyri og ólst þar upp fyrstu árin. „Við fluttum suður 1979, pabbi var á þingi og við áttum þá tvö heimili en fluttum alveg suður 1984. Í millitíðinni fluttum við sex sinnum á sex árum. Það tók á en þroskaði mig.

Ég var ekki mikið í félagslífi í grunnskóla,“ segir Jónína aðspurð. „Ég las mikið, passaði börn, ferðaðist með mömmu og pabba, dvaldi hjá ömmu og afa á Ólafsfirði og svo pressaði ég blóm! Krökkunum mínum finnst þetta mjög nördalegt en ég safnaði blómum og pressaði og fannst skemmtilegt að stúdera náttúruna með þeim hætti.“

Jónína gekk í Barnaskólann á Akureyri, Melaskóla, Réttarholtsskóla og varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1990. Hún lauk diplómaprófi í frönsku við Háskólann í Reims 1991 en hóf síðan nám í lögfræði við Háskóla Íslands og lauk þaðan Cand.jur-prófi 1996. Hún hlaut lögmannsréttindi 1997 og lauk mastersgráðu, LLM, frá London School of Economics and Political Science árið 2000.

Jónína var lögmaður hjá A&P Lögmönnum 1996-1999, deildarsérfræðingur á skrifstofu fjármagnsmarkaðar í viðskiptaráðuneyti 2000-2004, skrifstofustjóri á almennri skrifstofu í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti 2004-2007, ráðuneytisstjóri í efnahags- og viðskiptaráðuneyti 2007-2010 og framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Arion banka hf. 2010-2019. Frá 1. apríl síðastliðnum hefur Jónína verið framkvæmdastjóri innri markaðssviðs ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA.

„Þar sem kórónufaraldurinn kom í veg fyrir að ég færi til Brussel til að hefja störf, fékk ég tölvu og síma senda frá ESA og gerði mér aðstöðu í silfurvinnustofunni minni inn af bílskúrnum. Það má því segja að ég hafi byrjað að vinna í bílskúrnum heima í Reykjavík í staðinn fyrir Brussel og hitti fólk í gengum tölvuskjáinn. Þetta eru sérstakar aðstæður að byrja í nýrri vinnu í nýju landi en er búið að ganga ótrúlega vel. Þessi tækni virkar og fólkið hjá ESA er frábært og er vant að taka við nýju fólki. Ég hlakka samt til að hitta samstarfsmenn mína almennilega, en enn þá eru allir að meginstefnu til að vinna heima hjá sér hjá ESA, svo það hefði ekki skipt öllu máli fyrir mig að vera úti í Brussel þessa mánuði. Við erum samt byrjuð að pakka núna, en skólinn hjá krökkunum úti hefst 27. ágúst.“

Starfið sjálft er sambland af stjórnun og lögfræði, segir Jónína. „Þetta er deild hjá ESA, sem skoðar hvort frjálst flæði vara, þjónustu, fólks og fjármagns sé tryggt með fullnægjandi hætti á Íslandi, í Noregi og Liechtenstein. Deildin er með u. þ. b. 40 starfsmenn, ég er með fjóra næstráðendur svo þetta er leiðtogahlutverk en að sama skapi þarf ég að vera vel inni í lögfræðinni og hafa skoðun á henni. Þetta starf er því ekki ósvipað því sem ég hef verið í. Framkvæmdastjórastaðan hjá Arion banka var líka svona, blanda af stjórnun og lögfræði og ráðuneytisstjórastaðan var það líka.“

Jónína lét meira til sín taka í félagsmálunum eftir grunnskóla, var aðstoðarleikstjóri hjá Herranótt í MR, sat í stjórn Orators félags laganema á háskólaárunum, og var framkvæmdastjóri höfundaréttarfélags Íslands og formaður Lögfræðingafélagsins eftir að háskólanámi lauk.

Helstu áhugamál Jónínu eru silfursmíði, jóga, ferðalög/útivist og matarmenning. „Ég fer í fjörurnar og safna steinum, læt slípa þá og bora og geri svo silfurgripi úr þeim. Ég smíða síðan líka skartgripi úr silfri. Þetta er dásamleg leið til að kúpla frá í vinnustofunni minni eftir vinnudaginn. Ég byrja flesta daga á jógaæfingum og hugleiðslu sem hefur komið sér mjög vel í leik og starfi. Síðan sæki ég tíma í Ljósheimum, Borgartúni. Jóga er akkerið mitt og hjálpar mér að beina orkunni í réttar áttir.

Okkur fjölskyldunni finnst líka gaman að ferðast. Við maðurinn minn höfum farið nokkrum sinnum til Afríku og tvisvar sinnum til Indlands, gengum m. a. um Himalaya-fjöllin. Við vorum dugleg að fara á framandi slóðir áður en börnin fæddust. Við fjölskyldan ætlum að nýta tækifærið að ferðast þegar við erum í Brussel. Það er svo stutt til allra átta þar. Svo hef ég mjög gaman af að finna góða veitingastaði og njóta góðs matar. Það er liður í því að njóta stundarinnar og lífsins.“

Fjölskylda

Eiginmaður Jónínu er Birgir Guðmundsson, f. 23.8. 1972, sjálfstætt starfandi ráðgjafi. Foreldrar hans: Hjónin Guðmundur Jónsson, f. 4.5. 1922, d. 11.5. 1988, vélfræðingur og yfirvélstjóri í Reykjavík, og Ásta Ingunn Thors, f. 16.6. 1936, fyrrverandi stjórnarráðsfulltrúi í Reykjavík.

Börn Jónínu og Birgis: Lárus Örn Birgisson, f. 29.7. 2004, Ásta Rún Birgisdóttir, f. 29.7. 2004, d. 29.7. 2004, og Unnur Ásta Birgisdóttir, f. 27.12. 2007.

Systkini Jónínu: Jón Ellert Lárusson, f. 4.3. 1956, viðskiptafræðingur, MA í skattarétti og reikningsskilum, búsettur í Þorlákshöfn; Unnar Þór Lárusson, f. 30.4. 1956, d. 7.6. 2010, tölvunarfræðingur, var búsettur á Akureyri, og dr. Marta Kristín Lárusdóttir, f. 8.6. 1963, dósent við Tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík, búsett í Reykjavík.

Foreldrar Jónínu: Hjónin Lárus Jónsson, f. 17.11. 1933, d. 29.11. 2015, alþingismaður og bankastjóri, og Guðrún Jónsdóttir, f. 12.11. 1932, húsmóðir og handverkskona. Hún er búsett í Reykjavík.