Hafdís Júlíusdóttir fæddist 30. nóvember 1936. Hún lést 27. júlí 2020.

Eiginmaður hennar var Kristinn Guðlaugur Jóhannesson, f. 24. október 1938, d. 20. febrúar 2017.

Útför Hafdísar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 7. ágúst 2020, kl. 13.30 .

Í dag er kvödd í Akureyrarkirkju elsku systir mín, Hafdís, en aðeins eru tæpir sjö mánuðir liðnir frá því að við kvöddum Sigurgeir bróður okkar. Það er svo sárt að sjá á eftir fólkinu sínu fara þó svo að horfast verði í augu við það að þetta er bara gangur lífsins sem við verðum að takast á við.

Hafdís var miklum kostum búin. Hún var mjög dugleg, eins og best mátti sjá þegar erfiðleikar steðjuðu að henni. Hún missti dóttur sína innan við eins árs gamla og tókst sjálf á við alvarleg veikindi en kvartaði aldrei þótt móti blési.

Oft hefur komið upp í huga mér hvað systir mín var fallega þenkjandi. Þegar hún var sextán ára gömul tók ég að mér verkefni á Ísafirði. Hafdís átti auðvitað ekki mikið af peningum en hún vissi að ég var að fara að heiman og vorkenndi mér. Vildi hún gleðja mig við aðskilnaðinn og fékk afgreiðslumann til að koma með sér í kaupfélagsbúðina eftir lokun til þess að finna handa mér kveðjugjöf. Opnaði ég gjöfina um borð í skipinu og man að ég táraðist þegar úr pakkanum komu fallegir og góðir inniskór. Mikið þótti mér hún fallega hugsandi þessi unga systir mín og þessi hlýhugur hefur aldrei gleymst.

Nú er systir mín komin á fallegan stað og búin að ná aftur saman við bónda sinn, hann Guðlaug. Ég sé þau í anda haldast hönd í hönd á dýrðlegum stað.

Kæra systir kveð ég þig

af kærleika og hlýju.

Ég veit að þú munt muna mig

er mætumst við að nýju.

Halldóra Júl.