Því miður hafið þér virðugi sendiherra einhvern veginn misskilið íslenskt samfélag. Líklega eiga almennir borgarar hvergi eins mikið og gott öryggi og hér, við búum ekki við neinar utanaðsteðjandi ógnanir nema ef vera skyldi gagnvart þeim sem hafa í hyggju alvarlegar hernaðarárásir á okkur.
Við erum eyríki þar sem mjög auðvelt er að koma á mjög góðu öryggiskerfi gagnvart öllum þeim ógnum sem að okkur kunna að steðja, eins og heimsfaröldrum á borð við Covid-19 sem hefur orðið ykkur Bandaríkjamönnum mjög erfiður viðureignar. Þannig báru íslensk yfirvöld þá gæfu með forystu okkar bestu sérfræðinga á sviði farandveikinda að loka landinu af gagnvart pestinni sem hefur heldur en ekki valdið mjög miklum usla í alþjóðlega samfélaginu fram að þessu.
Þér getið ábyggilega gengið um götur Reykjavíkur sem og annarra sveitarfélaga algjörlega óvopnaður og án vopnaðra öryggisvarða hvar sem er og hvenær sem er. Íslenskt samfélag er mjög öruggt þrátt fyrir að vera mjög opið og manneskjulegt. Við höfum ekki neina ástæðu til að valda öðrum einhverju líkamstjóni, hvort sem er almennur borgari eða háttsettur embættismaður erlends ríkis eins og þér. Þetta getið þér ábyggilega borið undir starfsfélaga í öðrum sendiráðum sem hér eru.
Við erum ósköp venjulegt fólk þar sem við blöndum geði hvert við annað og má benda yður á heitu pottana í sundlaugunum þar sem þverskurður samfélagsins kemur saman og ræðir saman. Þar er spjallað um daginn og veginn eins og gefur að skilja og auðvitað koma fram ýmsar skoðanir sem allir virða þótt þær kunni ekki allar að geðjast hverjum sem er.
Þér eruð velkominn í þetta opna samfélag okkar en þar dettur engum heilvita manni í hug að ganga um vopnaður né í fylgd vopnaðra öryggisvarða. Slíkt þykir vera goðgá enda eru allir jafnir fyrir guði og mönnum.
Við Íslendingar áttum í mjög alvarlegum vopnaviðskiptum á fyrri hluta 13. aldar þar sem þúsundir manna börðust innbyrðis í átökum höfðingja með skelfilegum afleiðingum. Í þessu samfélagi okkar voru þá færðar í letur mjög merkar bókmenntir sem við Íslendingar nefnum Íslendingasögur. Þær segja frá mjög afdrifaríkum deilum, ástum, hatri, vopnaviðskiptum, iðrun og fyrirgefningu. Þessar fornu bókmenntir okkar eru megingrundvöllur þess að hér er töluð íslenska sem er eitt elsta tungumál sem talað er um norðanverða Evrópu. Kannski þetta hafi verið ástæðan fyrir því að við Íslendingar erum í dag svo friðsamir og sáttfúsir sem við erum.
Þið Bandaríkjamenn áttuð í hliðstæðri baráttu og íslenska Sturlungaöldin á 13. öld, borgarastyrjöldin í Ameríku sem háð var 1861-1865 og hefur verið hreint skelfileg ekki síður en átök miðalda. Þá komu fram ný drápstæki eins og afturhlaðningar af fallstykkjum sem ollu gríðarlegri byltingu í hernaði og gátu valdið meiri blóðsúthellingum en fyrri tól sem þá þekktust. En við Íslendingar höfum enga óvini á síðari öldum nema ef vera skyldi lúsina sem olli okkur oft vandræðum.
Ég hvet yður ágæti sendiherra að kynnast sögu vorri. Þar gætir margs sem þið Bandaríkjamenn gætuð ábyggilega dregið yðar lærdóm af. Árið 1908 datt bónda einum í Mosfellssveit í hug að leggja vatnsleiðslu úr hver í landi sínu og leiða vatn úr honum í bæinn sinn að Suður-Reykjum í Mosfellssveit. Þetta mun vera upphafið af að Íslendingar hafa hitað yfir 90% húsa sinna með hitaveituvatni eins og stendur í dag.
Og við höfum engan her enda engin þörf á. En við höfum mjög gott opinbert heilbrigðiskerfi sem gagnast öllum samfélagsþegnunum og það hefur staðið sig mjög vel í baráttunni gegn Covid-19. Oss Íslendingum skilst að opinbera heilbrigðiskerfið í BNA hafi brugðist ykkur þrátt fyrir að mikil þörf sé á góðu heilbrigðiskerfi. Það þykir oss miður. En hvers vegna eruð þið í BNA að eyða um 20% ríkisútgjalda í herinn en sitjið uppi á sama tíma með nánast handónýtt opinbert heilbrigðiskerfi?
Endilega skrifið skýrslur til yðar yfirvalda um það sem þér hafið orðið varir við í íslensku samfélagi sem gæti orðið ykkur í BNA að gagni. En vonandi finnið þér yður öruggari í íslensku samfélagi sem er í senn bæði einfalt en þó mjög öruggt í alla staði. Einnig fyrir erlenda sendiherra sem yður.
Í guðs friði!
Höfundur er leiðsögumaður og eldri borgari í Mosfellsbæ. arnartangi43@gmail.com