Trausti Þór Stefánsson fæddist 6. júlí 1974. Hann lést 14. júlí 2020.
Útförin fór fram 22. júlí 2020.
Mér var verulega brugðið þegar ég frétti af andláti þínu vinur minn. Við höfðum átt saman mjög góða kvöldstund fáeinum dögum fyrr þegar ég bauð þér í mat, þar sagðir þú mér að þér hefði sjaldan liðið betur og þig langaði til að fara utan í frí þegar aðstæður leyfðu. Við ræddum saman í marga klukkutíma um lífið og tilveruna og það sem við höfðum brallað saman í gegnum árin, fjölmargar utanlandsferðir og ófá partíin. Þegar ég kvaddi þig eftir frábært kvöld hvarflaði ekki að mér að þetta væri okkar síðasta samtal.
Þú hafðir glímt við veikindi sem tóku sig upp á ný fyrir einu ári. Ég trúði því að þú ættir nokkur góð ár eftir. Eftir stendur að þú, Trausti vinur minn, barst nafn sem fór þér einstaklega vel, þú varst einstaklega traustur vinur og falleg sál sem verður sárt saknað. Sjáumst síðar Trausti minn.
Davíð Guðmundsson.
Ég vann um tíma með Trausta hjá Aðföngum og áttum við í góðum samskiptum þar vegna vinnu okkar.
Aldrei bar skugga á þau samskipti enda var Trausti einstaklega þægilegur með gott geðslag og svo laus við alla tilgerð og hafði einstaklega góða nærveru.
Einnig áttum við oft góð og skemmtileg samskipti í pásum þar sem oftar en ekki var spjallað um ýmis ferðalög sem Trausti hafði mikið dálæti á enda annaðhvort nýkominn úr ferðalagi eða farinn að plana það næsta.
Trausti var einn af þessum ljúfu einstaklingum sem manni getur ekki annað en þótt vænt um og gott er að umgangast.
Ég er afar þakklát fyrir að hafa kynnst svo góðum dreng og frábærum samstarfsmanni en nú tekur við annars konar ferðalag hjá honum á öðrum vettvangi.
Ég óska ástvinum Trausta samúð mína.
Sigurbjörg Alfreðsdóttir.