Guðmundur Magnússon fæddist í Mykjunesi í Holtahreppi, síðar Rangárþingi ytra, 13. janúar 1957. Hann lést 27. júní 2020.
Foreldrar hans voru Magnús Guðmundsson, f. 16. janúar 1918, d. 15. ágúst 1995, og Kristrún Guðjónsdóttir, f. 13. október 1919, d. 11. janúar 2010. Bróðir Guðmundar er Heiðar, f. 16. september 1941. Dóttir Heiðars er Heiðrún P., f. 14. nóvember 1970. Hún er gift Garðari G. Gíslasyni, f. 19. október 1966. Heiðrún og Garðar eiga þrjú börn: Gísla, f. 17. nóvember 1991; Karitas Rán, f. 3. ágúst 1996, og Sæbjörn Hilmi, f. 11. ágúst 2004.
Guðmundur ólst upp í Mykjunesi fram yfir 1970, er hann flutti til Reykjavíkur ásamt foreldrum sínum. Að loknum grunnskóla fór Guðmundur í Menntaskólann við Tjörnina og lauk þaðan stúdentsprófi. Samhliða stundaði hann nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, þaðan sem hann brautskráðist árið 1979. Guðmundur fór til framhaldsnáms við Tónlistarháskólann í Köln, þar sem hann stundaði nám við góðan orðstír um fimm ára skeið.
Guðmundur þótti afburða píanóleikari og hlaut víða lofsamleg ummæli gagnrýnenda vegna leiks og túlkunar. Hann bætti tónlistarkennaranámi við menntun sína og kenndi á píanó um langt árabil, m.a. við tónlistarskólana á Seltjarnarnesi, í Garðabæ og í Keflavík. Þá sinnti Guðmundur einkakennslu á píanó. Hann lék víða á tónleikum, þ.á m. einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Útför Guðmundar fór fram frá Fossvogskapellu 14. júlí 2020 í kyrrþey.
Guðmundur Magnússon var lengi fram eftir árum mér sem yngri bróðir en við vorum í raun bræðrasynir. Bærinn okkar var Mykjunes í Holtum. Þar slitum við barnsskónum, hann árið um kring, ég öll sumur. Í Mykjunesi var blandaður búskapur, kýr, kindur, hestar, fiðurfé. Við frændurnir tókum þátt í öllum bústörfum um leið og við höfðum getu til. Jafnframt stunduðum við um tíma okkar eigin búskap á minni skala, í Mykjunesi II. Undirritaður var bóndinn þar en bústjórar hver af öðrum voru Guðrún, Ómar, Dagný og Guðmundur sem var yngstur. Það sem Guðmundi þótti skemmtilegast við þennan hliðarbúskap voru hornsílaveiðar sem við stunduðum í pyttinum undir brúnni hjá brúsapallinum. Oft reyndum við að góma hornsílin með berum höndum en yfirleitt án árangurs. Betur reyndust glerkrukkur undan sultu. Hornsílin veiddum við handa kettinum sem alltaf tók við krásunum en þakkaði aldrei fyrir sig. Hann hafðist gjarnan við á heitavatnsdunknum undir stigapallinum á leið inn í bæ milli þess sem hann veiddi mýs og hét aldrei neitt enda ekki gæludýr. Annað áhugamál áttum við Guðmundur saman, landafræði. Báða langaði í heimsreisu.
Hugur Guðmundar hneigðist ekki til búskapar þegar árin liðu. Hann hneigðist til tónlistar. Ungur hóf hann píanónám og árum saman fór hann vikulega út á Selfoss til að sækja þar tíma hjá Jónasi Ingimundarsyni. Náminu hélt hann áfram í Reykjavík samhliða menntaskólanámi. Eftir stúdentspróf lá leið hans til Þýskalands þar sem hann fullnumaði sig í sinni listgrein. Eftir heimkomuna hélt hann nokkra einleikstónleika en honum var ekki gefinn hæfileikinn að markaðssetja sig í hörðum heimi þannig að einleikaraferillinn varð ekki langur. Þá sneri hann sér að kennslu í píanóleik sem varð ævistarf hans.
Ég fullyrði að Guðmundur hafi verið nautnalítill maður. Þetta orð, nautnalítill, hef ég frá Gróu ömmu okkar í Mykjunesi. Í hennar munni þýddi það að vera nægjusamur. Þegar ég heimsótti Guðmund í Köln um árið brá mér næstum því. Mér fannst herbergið þar sem hann leigði varla vera mikið meira en skápur. En þetta nægði honum. Allt var þaulskipulagt í þessari vistarveru, meðal annars mátti fella rúmið inn í einn vegginn þegar ekki var sofið í því. Tónlistin var Guðmundi allt, hún var hans heimur og heimsreisa.
Úr því ég minntist á Gróu ömmu okkar þá get ég líka fullyrt annað. Enginn, að öllum öðrum ólöstuðum, sýndi henni meiri ræktarsemi eftir að hún fluttist háöldruð til Reykjavíkur en Guðmundur. Eftir að hún fór á Vífilsstaði, þá komin á tíræðisaldur, heimsótti Guðmundur hana daglega, oftast fótgangandi frá Reykjavík, og sat hjá henni lengi í hvert sinn og spjallaði við hana um heima og geima, aðallega gamla daga heima í Mykjunesi, og það skipti hann engu máli þótt hún myndi aldrei næsta dag hvort nokkur hefði komið í heimsókn til hennar daginn áður.
Svona hugulsemi er þakkarverð.
Veri Guðmundur frændi minn frá Mykjunesi kært kvaddur.
Trausti Steinsson.