Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Tekjur sveitarfélaga af staðgreiðslu útsvars hækkuðu yfir allt landið um 0,3% eða samtals um rúmlega 336 milljónir króna á seinustu sex mánuðum frá sama tímabili í fyrra.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Tekjur sveitarfélaga af staðgreiðslu útsvars hækkuðu yfir allt landið um 0,3% eða samtals um rúmlega 336 milljónir króna á seinustu sex mánuðum frá sama tímabili í fyrra. Tekjur einstakra sveitarfélaga sveifluðust þó mismikið til hækkunar eða lækkunar. Þær jukust í 35 sveitarfélögum en minnkuðu í 36. Í einu sveitarfélagi stóðu þær í stað milli ára.

Tímabilið sem um ræðir er frá febrúar til júlí sl. og spannar að mestu faraldur kórónuveirunnar og tíma hertra sóttvarnaaðgerða sem hefur haft mikil áhrif á atvinnulíf og tekjur.

Hag- og upplýsingasvið Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman upplýsingar um tekjur sveitarfélaganna af staðgreiðslu þá undanfarna sex mánuði sem um ræðir en janúar er ekki tekinn með þar sem útsvar sem greitt er í janúar er að mestum hluta lagt á launagreiðslur ársins á undan. „Ef skoðaðir eru einstakir landshlutar má sjá að staðgreiðslan hefur sums staðar lækkað en [sums] staðar hækkað. Mest var hækkunin á Norðurlandi vestra eða um 2,3% en mest var lækkunin á Suðurnesjum eða um 2,5%,“ segir í umfjöllun um þessar niðurstöður.

Tekjur Reykjavíkurborgar af staðgreiðslu minnkuðu um 0,2% frá febrúar til júlí eða um tæpar 83 milljónir kr. en tekjur annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu jukust samanlagt um 1,6% á seinustu sex mánuðum.

Tekjur Kjósarhrepps hækkuðu hlutfallslega mest eða um 33,5%. Á Seltjarnarnesi hafa tekjurnar hækkað um 4,2% frá í febrúar og í Garðabæ um 3,7%. Í Hafnarfirði drógust tekjurnar saman um 0,4%.

Tekjurnar af staðgreiðslunni hafa breyst mjög misjafnlega í einstökum sveitarfélögum á landsbyggðinni. Sjá má að í sveitarfélögum þar sem ferðaþjónusta vegur þungt í atvinnulífinu hafa útsvarstekjurnar dregist víða saman á umliðnum sex mánuðum. Þannig minnkuðu t.d. tekjur Skútustaðahrepps í Mývatnssveit um 5,6% milli ára og í Mýrdalshreppi minnkuðu þær um rúmar 25 milljónir eða um 13%. Í Reykjanesbæ minnkuðu tekjurnar um 3,1%.

Í Vestmannaeyjum hafa staðgreiðslutekjur aukist um 3,1% frá sama tíma í fyrra, á Akureyri jukust þær um 0,5%, Skorradalshreppur fékk 10,2% meiri tekjur af staðgreiðslu og í Helgafellssveit jukust tekur um 21%. Útsvarstekjur drógust saman um 15,5% í Skagabyggð og um 7,5% í Tjörneshreppi. Tekjur Seyðisfjarðarkaupstaðar minnkuðu um 4% en í Fljótsdalshreppi jukust þær um 19,1%.