Í leiðara Kjarnans þann 6. ágúst fjallar Þórður Snær Júlíusson um að nú sé komið að pólitíkinni. Þar vísar hann í orð Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um framtíðina með Covid. Leiðarinn er mjög greinargóð lýsing á stöðunni og vandamálinu sem við stöndum frammi fyrir í dag. Vandamáli sem lýsir sér til skamms tíma með atvinnuleysi og gjaldþrotum í haust og til langs tíma með ósjálfbærum kerfum sem íhaldssömu kerfisflokkarnir mynduðu stjórn um að viðhalda í einhvers konar stöðugleika. Stöðugleika sem snýst um að viðhalda hagsmunum þeirra sem eiga í stað sjálfbærni fyrir alla.
Það er þörf á nýjum kerfum. Í sjávarútvegi, landbúnaði, nýsköpun, stóriðju, umhverfismálum, menntamálum, samgöngum og að sjálfsögðu í heilbrigðis- og velferðarmálum. Ég skil það vel að stjórnin sem tók við 2017 hélt að hún væri með samfélag á góðum stað sem þyrfti bara pólitískan stöðugleika. Ég skil vel hvernig þau misskildu þá stöðu allverulega. Þetta er stjórn hagsmunagæslu um kerfi þeirra flokka sem bjuggu þau til og vilja ekki viðurkenna að afurð þeirra er orðin úreld. Fjármálaráðherra hefur til dæmis haldið því fram að það þurfi „Ísland 2.0“, og heldur því fram að það sé einhvers konar nýjung eða uppfærsla. Vandamálið er að 2.0 byltingin gerðist í kringum síðustu aldarmót. Stjórnsýslan er að einhverju leyti komin lengra en 2.0, en pólitíkin er hins vegar pikkföst á síðustu öld. Að minnsta kosti pólitík íhaldsflokkanna, sem er skiljanlegt út frá hugmyndafræði þeirra um íhald. Vandamálið er að heimurinn breytist orðið svo hratt að hugmyndafræði íhaldsins úreldist nú orðið á árum en ekki áratugum.
Ef það hefði ekki orðið hrun þá hefði kannski verið hægt að viðhalda gömlu kerfunum með uppfærslum. Líklega ekki lengi samt. Stjórnarskráin, sjávarútvegskerfið og svo margt annað er einfaldlega orðið svo úr sér gengið fyrir flesta. Flesta aðra en þá fáu sem hagnast á þeim.
Nú, á tímum Kófsins, er tími til þess að gera nýtt og betra. Það gamla virkar ekki lengur því samfélagið hefur breyst svo mikið. Þær breytingar sem við höfum gengið í gegnum, erum að ganga í gegnum og munum sjá á næstu árum eru óhjákvæmilegar. Við verðum að bregðast við Covid-ástandinu. Við verðum að huga að nýsköpun til framtíðar. Við verðum að gera betur í menntamálum, loftslagsmálum, velferðarmálum og öðrum kerfum til þess að takast á við áskoranir næstu áratuga. Við þurfum menntakerfi og nýsköpun sem skapa tækifæri. Við þurfum heilbrigðiskerfi og velferðarkerfi sem tryggir okkur fyrir alls konar slysum. Við þurfum að taka á auðlindamálunum okkar þannig að þær gagnist okkur öllum og við þurfum nýja stjórnarskrá til þess að styrkja lýðræðið verja réttindi okkar og komandi kynslóða. Við þurfum pólitík sjálfbærni.
Höfundur er þingmaður Pírata. bjornlevi@althingi.is