Kvennaflokkur Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er efst kvenna í Mosfellsbæ.
Kvennaflokkur Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er efst kvenna í Mosfellsbæ. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Golf Kristján Jónsson Kristófer Kristjánsson Níu kylfingar léku undir pari í karlaflokki þegar Íslandsmótið í golfi hófst á Hlíðavelli í Mosfellsbæ í gær. Tómas Eiríksson Hjaltested úr GR og Aron Snær Júlíusson úr GKG skiluðu inn besta skorinu.

Golf

Kristján Jónsson

Kristófer Kristjánsson

Níu kylfingar léku undir pari í karlaflokki þegar Íslandsmótið í golfi hófst á Hlíðavelli í Mosfellsbæ í gær. Tómas Eiríksson Hjaltested úr GR og Aron Snær Júlíusson úr GKG skiluðu inn besta skorinu. Léku þeir á 69 höggum og eru á þremur höggum undir pari vallarins. Staðan er áhugaverð því aðeins höggi á eftir þeim koma þrír kylfingar: Viktor Ingi Einarsson úr GR, Rúnar Arnórsson úr Keili og heimamaðurinn Sverrir Haraldsson úr GM. Fjórir kylfingar léku því á 71 höggi eða á höggi undir pari. Einn þeirra er þrefaldur Íslandsmeistari úr Keili, Axel Bóasson, en einnig GR-ingarnir Sigurður Bjarki Blumenstein, Böðvar Bragi Pálsson og Bragi Arnarson.

Axel er sá eini þessara níu sem orðið hefur Íslandsmeistari. Átta kylfingar voru á parinu. Í þeim hópi er Kristján Þór Einarsson úr GM sem varð Íslandsmeistari árið 2008. Kristján getur spilað Hlíðavöll vel með lokuð augun. Bakmeiðsli hafa gert honum erfitt fyrir síðustu árin en takist honum að halda í við efstu menn fram eftir mótinu er hann til alls líklegur.

Í kvennaflokki léku fjórir kylfingar undir pari á fyrsta degi en þær luku keppni í gærkvöldi. Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er efst en hún lék á 69 höggum, þremur undir pari vallarins. Ragnhildur Kristinsdóttir er höggi á eftir henni í öðru sæti en þær eru báðar úr GR. Ríkjandi Íslandsmeistari, Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili, er jöfn Sögu Traustadóttur úr GR í þriðja sæti en þær léku hringinn á 71 höggi eða einu undir pari.