Veronika S. Magnúsdóttir
veronika@mbl.is
„Við höfum þurft að vara fyrirtæki við því að óeðlilegar verðhækkanir gætu farið gegn samkeppnislögum,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Samkeppniseftirlitinu hafa borist ábendingar um óeðlilegar verðhækkanir á sóttvarnavörum í ljósi aukinnar eftirspurnar í kórónuveirufaraldrinum en engin fyrirtæki hafa enn verið sektuð vegna þessa.
Í ljósi nýrra sóttvarnareglna hefur sala á andlitsgrímum stóraukist í takt við eftirspurn. Verðlag á grímum er misjafnt eftir verslunum en sem dæmi má nefna að hægt er að fá 50 þriggja laga grímur í pakka frá einni verslun á 6.990 krónur en annars staðar er verðið 9.580 kr. fyrir sama fjölda grímna, einnig þriggja laga.
Svipuð staða og þegar spurn eftir handspritti jókst
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir mikilvægt að neytendur séu á varðbergi og beri saman verð á andlitsgrímum.„Okkur hafa borist ábendingar um að þessar grímur séu dýrar og það sé mikill verðmunur,“ segir Breki. Samtökin bendi á að tilkynna slíkt til Samkeppniseftieftirlitsins.
Svipuð staða hafi komið upp þegar handspritt varð eftirsóttari vara en áður, í byrjun faraldursins.
„Þær þurfa að uppfylla öryggisstaðla og það er betra fyrir umhverfið að nota margnota grímur,“ segir hann.
Andlitsgrímur eru nú orðnar meðal þeirra vara sem teljast nauðsynlegar í vissum aðstæðum í ljósi sóttvarnareglna, þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra millibil, sér í lagi í samgöngum og þar sem nálægð milli ótengdra aðila er óumflýjanleg.
Auður Ólafsdóttir, verkefnastjóri verðlagseftirlits hjá ASÍ, segir að unnið sé nú að því að bera saman verð á andlitsgrímum og gefa út leiðbeiningar til neytenda í því samhengi.
Andlitsgrímur hafa víða selst upp í verslunum landsins í kjölfar sóttvarnareglna þess efnis. Lýsti birgðastjóri Tandurs því í samtali við mbl.is í gær að þrátt fyrir að sendingar með andlitsgrímum hafi selst upp hafi nýjar grímur ekki verið keyptar strax, þar sem borið hafði á verðhækkunum birgja vegna eftirspurnar.
Fermingar fara fram
• Engin altarisganga • Fleiri athafnir Fermingar haustsins munu allar fara fram þrátt fyrir hertar sóttvarnareglur. Einungis nánasta fólk fermingarbarna getur verið viðstatt athafnir og engin altarisganga verður, svo unnt sé að fylgja tveggja metra reglunni. Fermingarnar munu fara fram í ágúst og september og athöfnum fjölgar en misjafnt verður eftir kirkjum landsins hvernig athöfnum er háttað.„Það var tekin ákvörðun hjá kirkjunni að hafa óbreytta dagskrá varðandi hvernig við högum fermingum í sambandi við hertar reglur,“ segir Pétur G. Markan, upplýsingafulltrúi Biskupsstofu. Athöfnum fjölgar og færri börn verða fermd í einu.
Pétur segir þessar breyttu aðstæður hafa haft ýmislegt jákvætt í för með sér:
„Það eru margir prestar sem lýsa þeirri reynslu að börnin séu að velta fyrir sér og átta sig betur á raunverulegum tilgangi fermingarinnar frekar en hversu stór kransakakan eigi að vera,“ segir hann.
Líkur á að atvinnuleysi aukist með haustinu
• Atvinnuleysi gæti náð 10% • Starfsumsóknum fjölgar BaksviðAron Þórður Albertsson
aronthordur@mbl.is
Gera má ráð fyrir að atvinnuleysi verði á bilinu átta til tíu prósent þegar líða tekur á haustið. Uppsagnarfrestur fjölda einstaklinga rennur út um það leyti sem ýta mun undir atvinnuleysi. Þetta segir Frank Friðrik Friðriksson, hagfræðingur hjá Vinnumálastofnun.
Að hans sögn var atvinnuleysi í júlímánuði um 7,6 til 7,8%. Þannig fækki einstaklingum á hlutabótum, en færist þess í stað yfir á almennar atvinnuleysisbætur. „Það virðist vera minnkun í skertu starfshlufalli og aukning í almenna atvinnuleysinu,“ segir Frank og bætir við að fjölga kunni í síðarnefnda hópnum á næstu mánuðum. Muni þar mikið um hópuppsagnir hjá stórum fyrirtækjum á borð við Icelandair. „Ef maður horfir til baka er hægt að áætla að uppsagnarfrestir séu að meðaltali þrír mánuðir. Þetta kemur því fram í ágúst eða september og það er talsverður fjöldi fólks,“ segir Frank, en lítill hluti umrædds hóps hefur verið endurráðinn.
Fjórar hópuppsagnir í júlí
Að því er fram kemur í tilkynningu Vinnumálastofnunar voru fjórar hópuppsagnir í júlímánuði. Í þeim missti 381 starfsmaður vinnuna, en flestir þeirra störfuðu á höfuðborgarsvæðinu. Er þar um að ræða 304 blaðbera sem Póstdreifing sagði upp undir lok mánaðar. Var þeim sagt upp vegna endurskipulagningar hjá fyrirtækinu. Í hótel- og veitingastarfsemi á Austurlandi misstu 28 manns vinnuna, 21 í fiskvinnslu á Vesturlandi og 28 í ferðaþjónustufyrirtæki á Suðurlandi. Búið er að gefa út tilkynningu þess efnis að blaðberarnir verði ráðnir að nýju, en auk þess segir Frank að gera megi ráð fyrir endurráðningum hjá einu síðastnefndu fyrirtækjanna.Uppsagnarfrestir starfsfólksins eru á bilinu einn til þrír mánuðir og lýkur því í september, október eða nóvember.
Umsóknum fjölgar áfram
Þórður S. Óskarsson, framkvæmdastjóri Intellecta, segir að umsóknum hafi fjölgað talsvert allt frá því heimsfaraldurinn barst hingað til lands. „Umsóknum hefur fjölgað sem eru merki um að það sé atvinnuleysi að gera vart við sig. Það eru margir að reyna að skipta um störf þannig að það er úr mörgum að velja,“ segir Þórður og bætir við að fyrirtæki haldi nú að sér höndum. Af þeim sökum sé ráðið í færri stöður en gert væri í eðlilegu árferði. „Þetta fer eftir því hvernig faraldurinn þróast, en ég tel að menn verði varkárari næstu vikur og mánuði. Það verður ráðið í nauðsynlegar stöður og annað sem verður að ráða í,“ segir Þórður.Spurður hvort einstaklingar kunni að neyðast til að leita sér að vinnu á öðrum vettvangi kveður Þórður já við. „Í ákveðnum geirum er verið að fækka fólki og þá er það skynsemin sem ræður för. Einstaklingar reyna í framhaldinu að finna sér störf sem eru óskyld,“ segir Þórður en tekur þó fram að stjórnendur fyrirtækja taki oft og tíðum við sér skömmu eftir verslunarmannahelgi. „ Sumarið er yfirleitt rólegt og minna um breytingar. Fyrirtækin fara hins vegar meira í gang á haustin og ráða í stöður sem beðið hafa. Ég á jafnframt von á því að það verði fleiri umsækjendur með haustinu.“