[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Ólafur Karl Finsen , leikmaður Vals, hefur lítið komið við sögu í Pepsi Max-deildinni í sumar. Logi Ólafsson , annar þjálfara FH, sagði í samtali við Fantasy Gandalf-hlaðvarpið að FH hefði reynt að fá Ólaf Karl til félagsins.
*Ólafur Karl Finsen , leikmaður Vals, hefur lítið komið við sögu í Pepsi Max-deildinni í sumar. Logi Ólafsson , annar þjálfara FH, sagði í samtali við Fantasy Gandalf-hlaðvarpið að FH hefði reynt að fá Ólaf Karl til félagsins.

„Það er ekkert launungarmál að við höfum rætt við Ólaf Karl Finsen og hann vill koma í FH en Valur vill ekki hleypa honum til okkar,“ sagði Logi, sem hefur þó ekki gefið upp alla von. „Það hafa verið viðræður milli Vals og FH í þessu máli en það hafa engar lausnir komið ennþá. Ég vona að þær komi.“

*Knattspyrnumaðurin ungi Andri Lucas Guðjohnsen , sem leikur með unglingaliði Real Madríd, fór í aðgerð í vikunni eftir að hann sleit krossband í hné á æfingu á dögunum. Umboðsskrifstofa hans birti mynd af honum á samfélagsmiðlum eftir aðgerðina sem heppnaðist vel en hann verður sennilega frá keppni í sex mánuði. Andri hefur leikið vel með unglingaliði Real og var nýlega á lista The Guardian yfir 60 efnilegustu leikmenn heims sem fæddir eru árið 2002 eða síðar.

*Körfuknattleiksdeild Grindavíkur hefur samið við Eistann Joonas Jarvelainen fyrir komandi keppnistímabil. Jarvelainen er 202 sentímetrar og getur leyst stöðu miðherja og framherja. Hann er þrítugur að aldri og á að baki nokkuð farsælan feril í heimalandi sínu og þá hefur hann einnig leikið í Bretlandi.

Jarvelainen er annar eistneski leikmaðurinn til að leika í efstu deild hér á landi. Sá fyrsti var Renato Lindmets sem var hjá Stjörnunni 2010-2012.

* LeBron James og félagar í Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfuknattleik fengu skell í fyrrinótt, töpuðu 105:86-gegn Oklahoma City Thunder. Lakers hefur þegar tryggt sér toppsæti vesturdeildarinnar og virðist aðeins vera farið að slaka á klónni.

* Pierre Emerick Aubameyang , fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Arsenal, er sagður nálægt því að skrifa undir nýjan samning við félagið en Gabonmaðurinn verður samningslaus eftir næstu leiktíð. Hann hefur verið orðaður við brottför frá Lundúnaliðinu undanfarið en virðist hafa snúist hugur eftir að Arsenal varð enskur bikarmeistari um helgina og tryggði sér jafnframt sæti í Evrópudeildinni á næstu leiktíð. Samkvæmt Daily Telegraph mun hann skrifa undir á næstu dögum.

*Ítalska knattspyrnufélagið Inter Mílanó hefur gert þriggja ára samning við Sílemanninn Alexis Sánchez. Sóknarmaðurinn, sem er 31 árs, lék með Inter á leiktíðinni á lánssamningi frá Manchester United. Inter þarf ekki að greiða United fyrir félagsskiptin, en þess í stað greiðir félagið leikmanninum himinhá laun. Skoraði Sánchez fjögur mörk í 29 leikjum í öllum keppnum með Inter á leiktíðinni.

Hann lék 45 leiki með United eftir að félagið keypti hann frá Arsenal. Náði hann sér ekki á strik í Manchester og skoraði aðeins fimm mörk. Sánchez skoraði 80 mörk í 166 leikjum með Arsenal og 47 mörk í 141 leik með Barcelona.