Stateless Atburðarásin er oft átakanleg.
Stateless Atburðarásin er oft átakanleg.
Staða flóttamanna og hælisleitenda hefur mikið verið til umræðu um allan heim á undanförnum árum enda mikil þörf á úrbótum á því sviði.

Staða flóttamanna og hælisleitenda hefur mikið verið til umræðu um allan heim á undanförnum árum enda mikil þörf á úrbótum á því sviði.

Í áströlsku þáttaröðinni Stateless, sem finna má á Netflix, er skyggnst inn fyrir dyr í miðstöð þeirri þar sem hælisleitendum er haldið föngnum þar til mál þeirra hafa verið afgreidd. Þar er varla komið fram við hælisleitendurna eins og manneskjur, þeir eru ávarpaðir með fanganúmerum sínum og búa við óviðunandi aðstæður. Jafnvel hinir siðprúðustu fangaverðir fara að koma fram við skjólstæðinga sína af hörku og yfirmennirnir á staðnum eru þvingaðir af stjórnvöldum til að fela það sem raunverulega fer fram á bak við tjöldin, fyrir fjölmiðlum og almenningi. Sá þráður þáttanna sem kemur mest á óvart er saga Sofie Werner sem er lauslega byggð á sönnum atburðum. Hún er ástralskur ríkisborgari sem glímir við geðræn veikindi og er fyrir slysni haldið fanginni þegar hún lýgur til um nafn og ríkisfang.

Hælisleitendastefna Ástrala hefur verið gagnrýnd en mann grunar að ástandið sé svipað í ýmsum ríkjum sem státa af mannréttindum og manni er einnig ljóst að á mörgum stöðum er ástandið mun verra.

Ragnheiður Birgisdóttir