Það voru samþykkt lög frá Alþingi í vor um að þeir sem urðu fyrir búsetuskerðingum í almannatryggingakerfinu fengju bara 90% af lágmarkslífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins.

Það voru samþykkt lög frá Alþingi í vor um að þeir sem urðu fyrir búsetuskerðingum í almannatryggingakerfinu fengju bara 90% af lágmarkslífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Bara 90% af lífeyri sem er undir fátæktarmörkum og ef þeir fengju krónu meira annars staðar frá þá yrði þeim refsað „krónu á móti krónu“.

Já, það er verið að taka aftur upp hina fáránlegustu af öllum skerðingum á Íslandi, krónu á móti krónu skerðingu, sem er ekkert annað en gróft fjárhagslegt ofbeldi.

En það kostar ríkið tugmilljónum króna meira í útgjöldum að skerða um þessi 10%. Já, ríkið myndi spara milljónir króna á því að borga 100% í stað 90% og spurningin er hvers vegna í ósköpunum er verið að gera þetta svona? Hvað er að hjá ríkisstjórn sem sparar eyrinn og hendir krónunni og það til að festa fólki í sárri fátækt?

Ef eldri borgari á ekki fyrir húsnæði eða mat á lágmarksframfærslu í almannatryggingakerfinu í dag, hvernig í ósköpunum á hann að fara að því að lifa á 90% af þeirri framfærslu? Þessari spurningu verða þeir að svara sem komu þessu mannvonskukerfi á.

Ríkisstjórnin talar nú í seinni bylgju af Covid-19 faraldrinum um að viðhalda núverandi stöðu og verja hana. Fjármálaráðherra talar um að verja kaupmáttinn og er ánægður með launaþróunina frá 2016-2020, þar sem launavísitalan hækkaði um 24%, en vísitala neysluverðs hækkaði um 10%.

Þetta þýðir að þá sem reyna að lifa á lægstu lífeyrislaunum frá Tryggingastofnun ríkisins vantar 14% hækkun á sinn lífeyri fyrir sama tímabil og hafa ekki fengið krónu í aukinn kaupmátt, heldur orðið að stórherða sultarólina.

Þegar þeir sem eru á lífeyrislaunum fá bara ólöglega hækkun um hver áramót samkvæmt vísitölu neysluverðs, en ekki samkvæmt launavísitölu eins og lögbundið er, þá nær ríkið stórum hluta af þeirri smánarhækkun aftur með auknum skerðingum. Skerðingum í almannatryggingakerfinu sem eru komnar yfir 60 milljarða króna á ári og fara hækkandi.

Þá verða þessir lífeyrislaunþegar, sem eru verst setta fólk á Íslandi í dag, að herða sultarólina enn frekar, þar sem verðlag matvæla hefur stórhækkað vegna gengis íslensku krónunnar. Þá er ótalinn kostnaður vegna grímukaupa og fleira, sem hefur hækkað upp úr öllu valdi.

Nei, fyrir veikt fólk og þá eldri borgara sem verst hafa það skal allt vera óbreytt næsta árið og þegar kosningar verða næsta haust getur ríkisstjórnin stolt dregið fram gömlu kosningaloforðin aftur og lofað þeim betri tíð með blóm í haga.

En Flokkur fólksins mun halda áfram að berjast með öllum ráðum gegn öllum áformum ríkisstjórnarinnar á þingi um að viðhalda sárri fátækt í íslensku þjóðfélagi, sem er henni til háborinnar skammar, um það þarf enginn að efast.

Þingflokksformaður Flokks fólksins. Gudmundurk@althingi.is