David Hare
David Hare
Enska leikskáldið David Hare hefur skrifað einleik um þá reynslu sína að veikjast af Covid-19 og þá reiði sem hann fann fyrir í garð breskra stjórnvalda fyrir að grípa ekki nógu snemma til aðgerða til að hefta útbreiðslu veirunnar.

Enska leikskáldið David Hare hefur skrifað einleik um þá reynslu sína að veikjast af Covid-19 og þá reiði sem hann fann fyrir í garð breskra stjórnvalda fyrir að grípa ekki nógu snemma til aðgerða til að hefta útbreiðslu veirunnar. Ralp Fiennes mun fara með hlutverk leikskáldsins í verkinu.

Leikhúsið The Bridge í London verður opnað að nýju í september með fjöldatakmörkunum og bili milli gesta, að því gefnu að stjórnvöld leyfi það. Fyrsta verkið á fjölum þess verður einleikur Hare sem nefnist Beat the Devil og er á vef BBC sagður vera viðbragð leikskáldsins við veikindunum. Koma þar við sögu ótti, draumar, lyf og óheiðarlegir stjórnmálamenn, að því er fram kemur í fréttinni.

Hare ræddi veikindi sín við BBC í apríl og sagði þau hafa komið honum í opna skjöldu. Einn daginn hafi hann verið með hita, þann næsta hafi hann verið ískaldur og líka kastað upp, fengið hósta og átt erfitt með að anda. Tíundi dagur veikindanna hafi verið fimm sinnum verri en sá fimmti.