Seðlabanki Íslands Umskipti hafa orðið í ríkisfjármálunum á þessu ári.
Seðlabanki Íslands Umskipti hafa orðið í ríkisfjármálunum á þessu ári. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Hlutfall skulda ríkissjóðs af vergri landsframleiðslu mælist nú tæplega 40%. Það var til samanburðar rúmlega 28% í janúar. Þetta má lesa úr nýjum Markaðsupplýsingum Lánamála ríkisins í Seðlabanka Íslands.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Hlutfall skulda ríkissjóðs af vergri landsframleiðslu mælist nú tæplega 40%. Það var til samanburðar rúmlega 28% í janúar.

Þetta má lesa úr nýjum Markaðsupplýsingum Lánamála ríkisins í Seðlabanka Íslands.

Heildarskuldir ríkissjóðs voru tæplega 882 milljarðar í lok janúar en var tæplega 1.136 milljarðar í lok júlí. Þær hafa því hækkað um ríflega 250 milljarða á sex mánuðum, eða um vel á annan milljarð á dag.

Hrein skuld hækkar minna

Hrein skuld ríkissjóðs hefur hins vegar ekki hækkað jafn mikið. Hún var tæpir 619 milljarðar í janúar en var 745 milljarðar í lok júlí. Það er hækkun um 126 milljarða. En hlutfall hreinna skulda ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu hækkaði úr 19,9% í 26,2% á tímabilinu.

Ríkisskuldir voru mjög íþyngjandi fyrir þjóðarbúið eftir efnahagshrunið 2008 og voru afborganir lána stór hluti af útgjöldum ríkissjóðs. Þær lækkuðu mikið í kjölfar uppgjörs fjármagnshafta og lækkuðu svo enn frekar, sem hlutfall af landsframleiðslu, í uppsveiflunni 2015-18. Síðan tók að hægja á lækkun ríkisskulda samhliða versnandi efnahagshorfum. Með kórónuveirufaraldrinum hafa þær aukist á ný.

En ríkisstjórnin hefur boðað margvíslegar aðgerðir í efnahagsmálum til að bregðast við niðursveiflunni.

Veiking krónu hefur lítil áhrif

Veiking krónunnar hefur lítil áhrif á skuldahlutföllin. Erlendar eignir námu 158 milljörðum í janúar en erlendar skuldir voru um 187 milljarðar. Mismunurinn var 29 milljarðar.

Í lok júlí var erlenda sjóðsstaðan 222 milljarðar en erlendar skuldir 252 ma. Mismunurinn var því 30 ma. eða álíka mikill og í ársbyrjun.

Ríkissjóður tók 500 milljóna evra lán í júní en greiddi upp um 292 milljóna evru lán í júlí. Vegna þessa jukust skuldir ríkissjóðs um rúmar 200 milljónir evra, eða sem svarar um 32 milljörðum króna. Til stóð að greiða niður lánið í júlí með lausu fé en í ljósi ástandsins var leitað erlendrar fjármögnunar. Um er að ræða varúðarráðstöfun til að tryggja sem besta sjóðsstöðu, ef þurfa þykir.

Jafnframt hefur verið brugðist við mikilli óvissu með því að auka innlenda sjóðsstöðu með útgáfu ríkisvíxla. Ríkisvíxlar eru skráðir í kauphöll og ganga kaupum og sölum. Útboðsfyrirkomulagið er með sama hætti og í ríkisbréfum en aðalmiðlarar taka þátt í útboðunum. Víxlarnir eru gefnir út til að hámarki eins árs. Aukin sjóðsstaða skýrir hvers vegna hrein skuld ríkissjóðs hefur ekki aukist meira en raun ber vitni.

Aukin útgáfa ríkisvíxla

Óverðtryggðar skuldir ríkissjóðs jukust úr 425 milljörðum í janúar í 607 milljarða í júlí.

Aukninguna má einkum rekja til útgáfu ríkisvíxla, en við óvissuaðstæður sem þessar getur slík fjármögnun hentað betur en langtímafjármögnun með útgáfu ríkisbréfa.

Jafnframt hefur útgáfa óverðtryggðra ríkisbréfa verið aukin en umfangið er minna en í víxlunum.

Verðtryggðar skuldir ríkissjóðs hafa hins vegar nær staðið í stað. Þær voru um 270 milljarðar í janúar en voru um 277 milljarðar í lok júlí.

Hefur ríkissjóður gefið út óverðtryggð ríkisbréf fyrir 60,7 milljarða í ár að söluverði en verðtryggð ríkisbréf fyrir 4,4 milljarða. Til samanburðar hafa verið seldir ríkisvíxlar fyrir 247 milljarða í ár og var staða þeirra í lok júlí 155 milljarðar.

Fram undan er svo útgáfa óverðtryggðra og verðtryggðra ríkisbréfa sem liður í langtímafjármögnun ríkissjóðs.

Samdráttur hefur áhrif

Á það ber að líta í þessu samhengi að í Peningamálum Seðlabankans í febrúar var gert ráð fyrir 0,8% hagvexti í ár. Horfurnar breyttust svo mikið með faraldrinum að í Peningamálum Seðlabankans í maí var spáð 8% samdrætti í ár. Síðan hefur Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagt við Morgunblaðið að mögulega verði samdrátturinn minni en þá var spáð.

Þessi neikvæðu áhrif á landsframleiðslu hafa í för með sér að skuldahlutföll á mælikvarða landsframleiðslu hækka. Þessi samdráttur, ef hann raungerist, skýrir þó ekki nema hluta hinnar hlutfallslegu skuldaaukningar.

Hreinar skuldir eru heildarskuldir að frádregnum bankainnstæðum og endurlánum, sem Seðlabankinn lánar jafnan öðrum stofnunum.

Endurlán eru lán í erlendri mynt, verðtryggð lán og óverðtryggð lán.