Ferðaþjónusta Hugmyndir eru uppi um byggingu útsýnisturn við hina vinsælu Grjótagjá í Mývatnssveit
Ferðaþjónusta Hugmyndir eru uppi um byggingu útsýnisturn við hina vinsælu Grjótagjá í Mývatnssveit — Ljósmynd/Bee Breeders
Sighvatur Bjarnason sighvaturb@mbl.is Að standa á toppi útsýnisturns og virða fyrir sér stórbrotið umhverfi Mývatnssveitar er framtíðarsýn sem kann að verða að veruleika nái hugmyndir þess efnis fram að ganga.

Sighvatur Bjarnason

sighvaturb@mbl.is

Að standa á toppi útsýnisturns og virða fyrir sér stórbrotið umhverfi Mývatnssveitar er framtíðarsýn sem kann að verða að veruleika nái hugmyndir þess efnis fram að ganga. Fyrirtækið Bee Breeders, sem sérhæfir sig í alþjóðlegum samkeppnum arkitekta, hefur í samráði við landeigendur Voga ehf. boðað til alþjóðlegrar samkeppni um uppbyggingu á svæðinu við Grjótagjá í Mývatnssveit.

Ólöf Hallgrímsdóttir, formaður félags landeigendanna, sagði við Morgunblaðið að það hefði nánast verið fyrir tilviljun að verkefnið komst á laggirnar. Lengi hefði staðið til að byggja upp innviði á svæðinu, auka stýringu og þjónustu. Þegar Bee Breeders hafi komið til skjalanna hafi verið ákveðið að slá til, enda „alltaf gaman að fá utanaðkomandi sýn“.

Útsýnisturn, kaffihús og gönguleiðir

Í lýsingu keppninnar segir að í landinu við Grjótagjá sé að finna hella með heitu vatni sem í áratugi hafi notið hylli ferðamanna auk þess sem margar gönguleiðir er að finna á svæðinu. Verkefni arkitekta er að hanna turn, sem auk þess að bjóða upp á útsýni yfir svæðið, getur hýst lítið kaffihús og aðstöðu fyrir starfsmann. Lögð er áhersla á að gestir upplifi það að vera á mótum flekaskila Evrópu og Norður-Ameríku en einnig er beðið um útfærslur á gönguleiðum í næsta nágrenni. Í boði eru fimm þúsund evrur fyrir verðlaunahugmynd, auk annara aukaverðlauna.

Þörf á aukinni þjónustu og stýringu

Ólöf segir að erfiðlega hafi gengið að stýra umferð á svæðinu og því miður hafi slæm umgengni leitt til þess að loka hafi þurft svokallaðri „Karlagjá“ með rimlum. Hún lýsir því að landeigendur verði varnarlausir þegar staðir sem þessir „komast á kortið“ og nauðsynlegt sé að innheimta þjónustugjöld til þess að standa straum af uppbyggingu. Hún segir að deiliskipulag hafi þegar verið unnið fyrir svæðið, en um nánari útfærslur í kjölfar keppninnar segir hún að slíkt sé algerlega óskrifað blað. Hún segir verkefnið á frumstigi og ekkert víst um framhaldið fyrr en á næsta ári. „Fyrst og fremst verður að vanda til verka,“ ítrekar hún.

Landeigendur eru ekki skuldbundnir á neinn hátt og hafa fullt vald til að hafna öllum tillögum. Hún segist þó vera spennt yfir þeim möguleikum sem kunna að koma í ljós. Alþjóðleg dómnefnd mun úrskurða á milli tillagna, en í henni situr m.a. Borghildur Indriðadóttir listamaður.