Unaður Húvörurnar frá Skin Regimen kalla fram mikinn ljóma. Hér er til dæmis andlitshreinsir sem gott er að nota bæði kvölds og morgna. Á meðan þú berð hann á þig og lyktar af honum gleymir þú stund og stað og þú gleymir því líka hvað veirulífið er leiðinlegt.
Unaður Húvörurnar frá Skin Regimen kalla fram mikinn ljóma. Hér er til dæmis andlitshreinsir sem gott er að nota bæði kvölds og morgna. Á meðan þú berð hann á þig og lyktar af honum gleymir þú stund og stað og þú gleymir því líka hvað veirulífið er leiðinlegt.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í miðjum heimsfaraldri er farið að reyna á þolrif landsmanna. Allra jákvæðasta fólk, sem sér alltaf björtu hliðarnar frekar en þær dökku, hefur þurft að gefa allt sem það á til þess að fara í gegnum töku tvö í veiruskrattanum án þess að missa...

Í miðjum heimsfaraldri er farið að reyna á þolrif landsmanna. Allra jákvæðasta fólk, sem sér alltaf björtu hliðarnar frekar en þær dökku, hefur þurft að gefa allt sem það á til þess að fara í gegnum töku tvö í veiruskrattanum án þess að missa lífviljann. Hvað getum við gert til þess að hressa okkur við á þessum skrýtnu tímum?

Marta María

mm@mbl.is

Vandamálið við mína kynslóð er að hún hefur ekki upplifað neinar heimshörmungar. Hún hefur vissulega upplifað persónuleg áföll, en það er öðruvísi þegar allir sitja í súpunni saman. Auðvitað hafði hrunið áhrif á fólk en það var öðruvísi. Það er búið að stimpla inn í hausinn á þessari kynslóð að hún eigi að vera besta útgáfan af sjálfri sér, sýna leiðtogahæfileika og slaka aldrei á. Bara keyra áfram, græða peninga og vera hamingjusöm. Það getur verið svolítið flókið þegar ytri aðstæður bjóða ekki upp á mikið flipp og fyrir suma er það alversta af öllu að þurfa að vera heima hjá sér. Ég tengi þó ekki við það.

Einhverjir bundu vonir við að sumarfríið yrði gott. Fólk myndi kynnast landinu sínu upp á nýtt og uppgötva heillandi staði. Það voru þó ekki allir sem upplifðu ferðalögin innanlands sem einhverja sælu. Það eru nefnilega allt of margir Íslendingar sem kunna sig ekki. Ég gæti til dæmis skrifað heila bók um taktleysi landa minna á ferðalögum eftir að hafa ferðast um Ísland í sumarfríinu. En ætli það sé ekki best fyrir mig að setja fókusinn á hið jákvæða í staðinn fyrir að pirra mig á miðaldra karlinum sem ákvað að hoppa ofan í Krossneslaug þannig að vatnið skvettist yfir hárið á mér og öllum konunum í lauginni. Ástæða þess að ég vildi ekki þvo á mér hárið var að það eru bara tvær sturtur þarna og ég nennti ekki að láta tíu konur í biðröð bíða eftir að ég setti í mig sjampó og hárnæringu. Nú eða pirra mig á konunni sem er svo stjórnsöm að hún æpti á kynsystur sína á veitingastað og bað hana að hlæja ekki svona hátt. Svo tók ég upp á því að leigja húsbíl sem reyndist algert þrotabú enda keyrður 170.000 km. Þegar húsbíllinn var farinn að líta út eins og hamstrabúr að innan, eftir að múslí datt úr hillu sem átti að vera lokuð, og dreifðist yfir allt gólfið komumst við að þeirri niðurstöðu að þetta væri orðið ágætt. Svo var líka farið að loga ljós í mælaborðinu sem boðar aldrei gott. Niðurstaðan var á þessum tímapunkti að við værum líklega komin með algert húsbílaógeð.

Það var því bara frekar ljúft og gott að komast aftur heim til sín þar sem enginn öskrar á neinn af því hann hlær of hátt og enginn skvettir vatni á hárið á þér. Þú getur notið þess að bera á þig andlitsmaska, sett á þig mörg lög af húðdropum, lesið bækur í friði, eldað besta mat í heimi og látið þig dreyma um geggjuð föt á erlendum tískusíðum. Svo getur þú tekið til í fataskápnum þínum og straujað allt sem hægt er að strauja og hlustað á hljóðbók á meðan, hringt í vini, fært til húsgögn, málað einn vegg eða tvo og skipulagt næsta alþjóðlega frí þar sem miðaldra menn með gestalæti, illa upp alin börn og vesen verður ekki með í för!