Ólafur Bjarni Andrésson
Ólafur Bjarni Andrésson
Eftir Ólaf Bjarna Andrésson: "Þetta reynist Andra Snæ ofviða. En nú hefur eitthvað gerst innra með mér."

Afkomendum Ketils Ketilssonar, útvegsbónda á Suðurnesjum, sem ranglega var sagður hafa banað síðasta geirfuglinum við Ísland, sárnaði löngum að heyra ósannindi um forföður sinn margtuggin; að hann væri valdur að dauða síðasta geirfugls jarðarinnar og hefði þar með rekið smiðshöggið á útrýmingu fuglastofns. Þetta þekki ég vel frá móður minni og móðursystur sem líkaði illa staðhæfingar og dylgjur um afa sinn í þessa veru. Þetta rakti ég í ítarlegri grein í Morgunblaðinu í janúar og vísaði ég í frumheimildir sem tóku af allan vafa um að hér hafi verið farið með rangt mál.

Tilefni skrifa minna var nýútkomin bók Andra Snæs Magnasonar rithöfundar, Um tímann og vatnið. Þar notaði höfundur þetta ranghermi sem eins konar dæmisögu og síðan stílbragð til að skjóta samtímanum skelk í bringu: Ef við gáðum ekki að okkur í umgengni við náttúruna gæti beðið okkar það hlutskipti að verða Ketill, sá sem bæri ábyrgð á óafsakanlegum umhverfisglæp.

Allt var þetta sett fram í eins konar trúnaðarsamtali höfundar við lesendur sína þar sem afar hans og ömmur og allur frændgarður kemur við sögu í mildilegu og ástríku samhengi. Það var einmitt það sem varð þess valdandi að ég taldi að Andri Snær myndi hafa skilning á viðkvæmni annarra þegar þeirra fjölskylda væri borin röngum og ósanngjörnum sökum. Þegar ensk þýðing bókar hans kom á markað fyrir fáeinum dögum beið ég þess að sjá hvernig hann bætti fyrir það sem rangt hafði verið hermt af hans hálfu.

Í stað þess að fullyrða að Ketill hefði banað síðasta geirfuglinum er hann nú sagður hafa iðulega verið sakaður um drápið og síðan er klykkt út með því að vara mannkynið við því hlutskipti að enda sem Ketill. Eins og fyrri daginn!

Ég stóð í þeirri trú að jafn ritsnjöllum manni og Andra Snæ Magnasyni yrði ekki skotaskuld úr því að bæta fyrir mistök sín og þá jafnvel nýta þau til að sýna fram á mikilvægi þess að hafa það sem sannara reynist. Þannig hélt ég að þeir menn hugsuðu sem langaði til að verða marktækir í umræðu um framtíð jarðarinnar, vildu fljúga hátt í nafni sannleikans, ekki bara hér á landi heldur um heiminn allan eða hvað annað vakir fyrir mönnum sem láta þýða orð sín á heimstungurnar svo boðskapur þeirra geti borist sem víðast?

Þetta reynist Andra Snæ ofviða. En nú hefur eitthvað gerst innra með mér. Það sem mér þótti einu sinni vera dapurlegt hlutskipti móðurfólks mín er það ekki lengur eftir að hið rétta hefur komið fram.

Öðru máli gegnir með Andra Snæ. Nú þykir mér þetta fyrst og fremst vera hans niðurlag.

Höfundur er afkomandi Ketils Ketilssonar.